Strandar á skilyrðum SA

Kristján Þórður Snæbjarnarson, talsmaður iðnaðarmanna.
Kristján Þórður Snæbjarnarson, talsmaður iðnaðarmanna. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Við höfum hingað til reynt allt sem við höfum getað til þess að reyna að ná samningum með því að sitja og ræða saman og semja þannig,“ segir Kristján Þórður Snæbjarnarson, talsmaður iðnaðarmanna, í samtali við mbl.is en iðnaðarmenn slitu í dag viðræðum við Samtök atvinnulífsins á fundi í húsakynnum ríkissáttasemjara.

„Næsta skref hjá okkur er að funda með baklandinu og undirbúa einhvers konar aðgerðir. Það verður gert núna á næstu dögum að hefja þá vinnu að undirbúa það,“ segir Kristján. „Það er auðvitað eitthvað sem við þurfum bara að fara yfir hvernig við viljum stilla upp.“

Spurður hvað beri á milli í viðræðunum segir Kristján iðnaðarmenn ekki hafa verið að ræða það efnislega í fjölmiðlum en helst strandi á ákveðnum skilyrðum sem SA hafi sett í viðæðunum fyrir því að hægt verði að landa kjarasamningi. 

„Þetta er eitthvað sem þeir hafa ekki verið reiðubúnir að víkja frá sem setur okkur í þessa stöðu að þurfa að slíta þessum viðræðum og setja málið í þennan farveg.“

Þetta tengist að sögn Kristjáns einkum vinnutímamálum líkt og í tilfelli Starfsgreinasambandsins. Spurður hvort boðaðir hafi verið frekari fundir hjá ríkissáttasemjara segir hann að það hafi ekki verið gert en verði væntanlega gert innan næstu tveggja vikna lögum samkvæmt.

„Ef það breytist eitthvað á milli samningsaðila þá mun ríkissáttasemjari boða til fundar þegar það gerist - ef það gerist. Annars er það innan tveggja vikna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert