„Ágreiningur um leiðir að sama markmiði“

„Það er ekkert nýtt undir nálinni að meiningarmunur sé á …
„Það er ekkert nýtt undir nálinni að meiningarmunur sé á milli félaga.“ mbl.is/​Hari

„Þetta kom á óvart. Ég hefði viljað sjá hann starfa með okkur áfram en virði hans ákvörðun engu að síður og óska honum velfarnaðar,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, um ákvörðun Guðbrands Einarssonar, formanns Landssambands íslenskra verzlunarmanna, að segja af sér.

Ákvörðunina segir Guðbrandur í tilkynningu vera mikinn meiningarmun milli hans og forsvarsmanna VR um gerð kjarasamninga.

Ragnar Þór segist geta tekið undir þau sjónarmið Guðbrands. „Ég get tekið undir það að það hafi verið ágreiningur um leiðir að sama markmiði, en hvort það sé tilefni til að segja sig frá trúnaðarstörfum fyrir verkalýðshreyfinguna verður hann að meta.“

„Það er ekkert nýtt undir nálinni að meiningarmunur sé á milli félaga, Eflingar og Starfsgreinasambandsins, VR og LÍV, og þeirrar aðferðafræði sem við notum og beitum.“

Ragnar Þór segist eftir sem áður virða ákvörðun Guðbrands og segir VR munu senda frá sér yfirlýsingu þar sem honum verður þakkað fyrir góð störf innan verkalýðshreyfingarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina