Bílstjórar utan Eflingar aki á föstudag

Þeir bílstjórar Gray Line sem ekki eru í Eflingu munu …
Þeir bílstjórar Gray Line sem ekki eru í Eflingu munu ekki leggja niður störf á föstudag, segir stjórnarformaður fyrirtækisins.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar – stéttarfélags, sendi í gær skeyti til forsvarsmanna hópbifreiðafyrirtækja á félagssvæði Eflingar vegna sólarhringsverkfalls hópbifreiðastjóra, sem verður á föstudaginn. Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Gray Line, segir að hótunartónn sé í bréfinu og að formaður Eflingar fari fram með rangindi.

Í skeyti Eflingar segir meðal annars að hópbifreiðastjórar sem greiði í önnur stéttarfélög en Eflingu og hafi ekki gildan kjarasamning um störf hópbifreiðastjóra, geri það „á eigin ábyrgð“ og að þeir séu ekki undanþegnir verkfallsboðuninni, þar sem samkvæmt kjarasamningi Eflingar og SA skulu allir hópbifreiðastjórar sem hafa starfsstöð á félagssvæði Eflingar „vera í félaginu og hlíta í öllum atriðum löglega teknum ákvörðunum félagsins, þar með talið um verkfall“.

Þórir segir að honum þyki „túlkanir formanns Eflingar á félagafrelsinu ganga ansi langt“. Hann segir það ekki svo að Efling „geti tekið yfir landslög og neytt launþega sem ekki eru í Eflingu til þess að fara í verkfall með kollegum sínum í Eflingu“ þegar þeir sjálfir séu í öðrum stéttarfélögum og hafi „enga aðkomu að þessu verkfalli með einum eða neinum hætti“.

Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Gray Line.
Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Gray Line.

Hann segir að þeir fáu bílstjórar Gray Line sem ekki eru í Eflingu muni keyra á föstudaginn og ganga í sín störf eins og venjulega. Segist Þórir handviss um að það sé lögmætt og vísar til þess að dómar hafi fallið um þetta efni í Félagsdómi.

„Ég er búinn að vera í þessum atvinnurekstri í yfir 30 ár og tel mig nú alveg vita hverjir mega keyra og hverjir ekki,“ segir Þórir.

„Þetta eru ekkert margir starfsmenn, en málið er það að félagafrelsi er tilfinningamál viðkomandi manna og menn vilja halda tryggð við þau félög sem þeir eru í. Stéttarfélög í dag eru líka orðin að einhverju leyti ákveðnir fríðindaklúbbar, menn vinna sér inn ákveðin réttindi og vilja halda í þau og taka þá þátt í störfum í sínu stéttarfélagi. Það er ekkert hægt að taka það af mönnum,“ segir Þórir.

Efling hóti bæði bílstjórum og fyrirtækjum

Í skeyti Eflingar segir einnig að óheimilt sé að láta „eintaklinga aðra en forstjóra fyrirtækis á svæði verkfallsboðunar ganga í störf félagsmanna í verkfalli“. Þannig sé ekki heimilt að láta stjórnendur eða eigendur sem hafa réttindi til þess að keyra hópbifreiðar, ganga í störf þeirra sem verða í verkfalli.

„Það er alveg ný túlkun,“ segir Þórir og bætir við: „Það sem hægt er að lesa út úr þessu bréfi, því miður, er að þau eru að hóta bílstjórum, sem er ekki gott og þau eru að hóta fyrirtækjunum, sem er ekki gott. Ef að menn telja að það sé verið að brjóta lög þá er bara eðlilegt að menn skrái það niður og það fari bara dómstólaleiðina. Það er rétta leiðin til að skera úr um einhvern vafa.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert