Fárviðri við Straumnesvita

Fárviðri er nú við Straumnesvita en þar er meðalvindhraði 35 …
Fárviðri er nú við Straumnesvita en þar er meðalvindhraði 35 m/s og hviðurnar ná yfir 43 m/s. Stormur og rok er þó á fleiri stöðum. Kort/Veðurstofa Íslands

„Þetta er að ná hámarki upp úr miðnætti og svo fer að draga smám saman úr í nótt og gengur niður með morgninum,“ segir Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur á vakt á Veðurstofu Íslands.

Fárviðri er nú við Straumnesvita en þar er meðalvindhraði 35 m/s og hviðurnar ná yfir 43 m/s. Stormur og rok er þó á fleiri stöðum og er meðalvindhraði á fjöllum á Vestfjörðum 20-25 m/s.

Gul viðvörun  er í gildi fyrir Breiðafirði, Vestfirði, Strandir og Norðurland vestra en þar er suðvestan átt, 20-25 m/s, og gengur á með dimmum éljum.

Veðurstofan hvetur fólk til að vera ekki á ferðinni að óþörfu á þeim slóðum og segir Þorsteinn norðvesturhluta landsins vera illfæran fram á morgun.

Meðalvindhraði á Hálfdáni er nú  27 m/s, 25 m/s á Fjallahálsi og eru fjallvegir víða lokaðir.

Veður er líka orðið slæmt á Ströndum og Norðvesturlandi. Á Blönduósi er vindhraðinn að nálgast 18 m/s og á Tröllaskaga er meðalvindhraðinn að nálgast 20 m/s. Þá er búið er að loka Öxnadalsheiðinni en þar ná vindhviðurnar 20-25 m/s. Einnig kann að vera blint við Breiðafjörðinn og þá má búast við leiðinda skafrenningi á Snæfellsnesi.

„Þetta er leiðindaveður sem  er vonandi bara að ganga niður í nótt,“ segir Þorsteinn og kveður ekkert ferðaveður á þessum landshlutum.

Þó að veðrið eigi að vera gengið niður í fyrramálið er fólki ráðlagt að kynna sér færð vega á vef Vegagerðarinnar áður en lagt er af stað, þar sem ryðja gæti þurft á einhverjum slóðum eftir nóttina.

Veðrið á mbl.is

mbl.is