Fundu gró og sveppahluti í Vörðuskóla

Skólameistarinn Hildur Ingvarsdóttir.
Skólameistarinn Hildur Ingvarsdóttir. mbl.is/Valgarður

„Það var farið í skoðun á húsnæðinu í janúar/febrúar til þess að kanna raka og mögulega myglu, þetta er gamalt hús. Fyrstu niðurstöður gáfu fullt tilefni til þess skoða húsnæðið nánar og ákveðin rými betur,“ segir Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskólans, í samtali við mbl.is um bréf sem send hafa verið nemendum og forráðamönnum um að fundist hafi gró og sveppahlutar í Vörðuskóla.

Í bréfinu sem sent var nemendum í dag kemur fram að skoðun hafi farið fram á vegum Ríkiseigna og að starfsmenn hafi haft áhyggjur um nokkurt skeið af ástandi hússins. Fram kemur að ákvörðun hafi verið tekin í samráði við Ríkiseignir um að færa starfsemi skólans tímabundið svo hægt verði að fara í viðeigandi viðgerðir.

Náttúrufræðistofnun greindi sýnin sem tekin voru í Vörðuskóla.
Náttúrufræðistofnun greindi sýnin sem tekin voru í Vörðuskóla. Skjáskot/Já.is

Hildur segir skoðunina hafa verið framkvæmda með tilliti til loftgæða, raka og myglu. „Það kom ekki nógu vel út þannig að við ákváðum í samráði við Ríkiseignir að flytja starfsemina á Háteigsveg, í Sjómannaskólahúsið, svo að Ríkiseignir gætu farið yfir og skoðað þetta ítarlegar. Þannig þarf ekki að bora í veggi eða rífa upp dúka með fólk í húsinu.“

Náttúrufræðistofnun greindi sýnin sem tekin voru í Vörðuskóla.

Flytja á næstu dögum

Megnið af starfsemi Upplýsingatækniskólans mun flytja að Háteigsvegi og hluti af kennslu færast yfir í aðalbyggingu við Skólavörðuholt, að því er segir í bréfinu. Þá eru nemendur sem sækja kennslu í Vörðuskóla beðnir um að að fylgjast vel með tilkynningum um staðsetningu kennslustunda.

Hildur segir að ekki ríki alvarlegt ástand, heldur hafi verið ákveðið að gæta fyllstu varúðar með tilliti til starfsfólks og nemenda. „Það verður lítil röskun á starfsemi skólans. Við vildum bara upplýsa alla um að frekari skoðun stæði til,“ segir hún og bætir við að flutningur starfseminnar verði á næstu dögum.

Starfsemi Upplýsingatækniskóla Tækniskólans hefur farið fram í Vörðuskóla.
Starfsemi Upplýsingatækniskóla Tækniskólans hefur farið fram í Vörðuskóla. Af vef Tækniskólans
mbl.is