Mikið svigrúm til að bregðast við

Davíð Þór Björgvinsson, varaforseti Landsréttar, ásamt öðrum framsögumönnum á fundinum.
Davíð Þór Björgvinsson, varaforseti Landsréttar, ásamt öðrum framsögumönnum á fundinum. mbl.is/Eggert

Mestu skiptir í kjölfar dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í síðustu viku að Landsréttur fái að starfa áfram af fullum þunga. Þetta sagði Davíð Þór Björgvinsson, varaforseti Landsréttar og fyrrverandi dómari við Mannréttindadómstólinn, á málþingi Lagastofnunar Háskóla Íslands um dóminn í dag. Þetta væri vandamálið sem fyrst og fremst blasti við í dag. Davíð sagði dóminn hafa komið sér á óvart enda sýndist honum í fljótu bragði að meirihluti dómsins hefði í málinu beitt lögfimi sem áður hefði ekki verið gert.

Málið leiddi til flókinna fræðilegra bollalegginga. Ríkið þyrfti að hlíta þjóðréttarlegum skuldbindingum vegna málsins því annars hefði ríkið gerst brotlegt að þjóðarrétti. Hins vegar kæmi skýrt fram í lögum um mannréttindasáttmála Evrópu að dómar Mannréttindadómstólsins væru ekki bindandi. Til þess að hlíta þjóðréttarlegum skuldbindingum þyrfti ríkið að minnsta kosti að greiða málskostnaðinn.

Flestir þjóðréttarfræðingar myndu væntanlega telja að þar með væri búið að fullnusta dóminn að sögn Davíðs. Hins vegar fælist líka í málinu skuldbinding til þess að gera ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir að frekari brot verði framin. Þetta hafi verið gert í kjölfar dóms Mannréttindadómstólsins með því að fjórir dómarar við Landsrétt, sem taldir voru falla undir dóminn, voru settir til hliðar.

Málið pólitískt flókið en ekki þjóðréttarlega

Davíð sagði málið þannig ekkert flókið frá þjóðréttarlegu sjónarmiði. Flækingin væri í pólitíkinni innanlands. Endanlegt mat á því hvort farið hefði verið eftir dómnum væri pólitískt á vettvangi ráðherranefndarinnar sem starfar í tengslum við Mannréttindadómstólinn. Dómurinn væri þannig eitt en það væri síðan pólitísk vegferð að meta hvort dóminum hefði verið fullnægt.

Davíð sagði að þegar svona mál kæmu upp þyrfti að slökkva elda sem meðal annars hefði falist í því að setja áðurnefnda fjóra Landsréttardómara til hliðar sem þó hefðu ekkert gert af sér annað en að sækja um starf. Þá gætu hins vegar eldar blossað upp annars staðar sem þyrfti að slökkva líka. Sagðist hann telja að gefa ætti stjórnmálunum svigrúm til að leysa málið.

Hins vegar minnti Davíð á að samkvæmt lögum skipti forseti Landsréttar verkum á milli dómara við dómstólinn og þannig væri einn möguleikanna í stöðunni, yrði stöðunni ekki kippt í liðinn, að umræddir fjórir dómarar færu mögulega að dæma aftur. Það væri þó ekki auðveld ákvörðun og gæti kallað á frekari vandræði með frekari kærum til Mannréttindadómstólsins og endurtekningu mála og svo framvegis.

Hafa haft dóm Mannréttindadómstólsins að engu

Davíð nefndi einnig að þetta væri ekki í fyrsta sinn sem Mannréttindadómstóllinn felldi dóma sem reyndist erfitt að framkvæma af pólitískum ástæðum. Nefndi hann dæmi um ákvörðun breskra stjórnvalda á sínum tíma að svipta fanga kosningarétti. Fjórtán árum síðar hefðu fangar enn ekki kosningarétt þar sem málið hefði síðan þvælst fram og til baka vegna þess að Bretar teldu þetta ekki koma til greina.

„Ég ætla ekki að fara að hvetja til þess að við séum hér með einhverja óhlýðni en ég vek athygli á því að ríkisstjórnin og Alþingi hafa mjög mikið svigrúm til þess að ákveða það sjálf með hvaða hætti þau kjósa að koma til móts við þennan dóm. Mín skoðun er sú að sú vinna þurfi að miða að því að það fólk sem hefur verið skipað til starfa í Landsrétti geti sinnt dómarastörfum eins og það hefur verið skipað til.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert