Pakkið mun sigrað

Gagnrýnanda Morgunblaðsins finnst leikmynd Ilmar Stefánsdóttur stórkostleg.
Gagnrýnanda Morgunblaðsins finnst leikmynd Ilmar Stefánsdóttur stórkostleg. Ljósmynd/Grímur Bjarnason

„Matthildur er þrekvirki af því taginu sem Borgarleikhúsið er komið með einstakt lag á að gera vel. Það er heitt hjarta í sýningunni sem hverfur ekki í hávaðanum, orðaflaumnum, tæknibrellunum og endalausri hugkvæminni og örlætinu við smáatriðanostrið,“ skrifar Þorgeir Tryggvason í leikdómi sínum um söngleikinn Matthildi í uppfærslu Borgarleikhússins sem birtur er í Morgunblaðinu í dag. Hann gefur uppfærslunni fjórar stjörnur. 

„Verkið sjálft er hinsvegar gallagripur, það vantar í það meiri dramatískan skriðþunga, alvöru þroskabrautir fyrir helstu persónur og mögulega aðeins færri nótur og orð. Engu að síður mikil skemmtun og hrífandi kvöldstund,“ segir í leikdómnum. 

Björgvin Franz Gíslason fer með hlutverk skólastýrunnar Karítasar Mínherfu sem …
Björgvin Franz Gíslason fer með hlutverk skólastýrunnar Karítasar Mínherfu sem leikstjóri uppfærslunnar lýsir sem morðinga sem pyntar börn. Gagnrýnandi Morgunblaðsins hefði viljað sjá Björgvin Franz gefa sér lausari taum í hlutverkinu og smjatta á illfyglinu. Ljósmynd/Grímur Bjarnason

Þar segir einnig: „Það er reyndar eitt af því sem gerir þessa þriggja tíma setu í stóra sal Borgarleikhússins jafn áhrifaríka og raun ber vitni hvað vel tekst að varðveita mennsku og trúverðugleika persónanna þrátt fyrir að bæði persónusköpun og hegðunar- og hreyfingamynstur sé stílfært og einfaldað að ystu mörkum. Allur þessi stóri leikhópur, ungir sem aldnir, og Bergur Þór Ingólfsson auðvitað líka, eiga hrós skilið fyrir þetta.“

Gagnrýnandi Morgunblaðsins fer fögrum orðum um alla sjónræna umgjörð og segir meðal annars: „Það er ekki úr vegi að byrja á að tala um hreint stórkostlega leikmynd Ilmar Stefánsdóttur og þá meðferð sem hún fær í lýsingu Þórðar Orra Péturssonar. Möguleikarnir virðast endalausir, óregluleg formin og urmull smáatriða tryggja að það er alltaf eitthvað óvænt handan við næsta snúning hringsviðsins.“

Rakel Björk Björnsdóttir fer með hlutverk kennslukonunnar Fríðu Hugljúfu og …
Rakel Björk Björnsdóttir fer með hlutverk kennslukonunnar Fríðu Hugljúfu og á frumsýningunni fór Ísabel Dís Sheehan með hlutverk Matthildar. Gagnrýnandi hreifst af frammistöðu þeirra beggja og segir söngrödd Rakelar Bjarkar bræða hvert hjarta. Ljósmynd/Grímur Bjarnason

Hann hrósar einnig þýðingu verksins, tónlistarflutningnum og frammistöðu leikhópsins. „Ísabel Dís Sheehan fór með titilhlutverkið á frumsýningunni og var framúrskarandi sannfærandi í leik, dansi og söng, ekki síst í stórum og krefjandi söngnúmerum sínum.“

Rýnir telur pakkið í fjölskyldu Matthildar vel skipað. „Það gustar af Birni Stefánssyni í hlutverki hins glórulausa pabba, Sölvi Viggósson Dýrfjörð var dásamlegur gleðigjafi þrátt fyrir algert aðgerðaleysi. Senuþjófurinn í fjölskyldunni er samt mamman yfirgengilega og Vala Kristín Eiríksdóttir fór á miklum og morðfyndnum kostum, ekki síst í glæstu dansatriði með Þorleifi Einarssyni,“ segir í leikdómnum sem lesa má í heild sinni í Morgunblaðinu í dag, en þar er farið yfir frammistöðu annarra í burðarhlutverkum. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert