Sund eða svefn?

Sundfólk æfir gjarnan snemma.
Sundfólk æfir gjarnan snemma. Ljósmynd/Getty Images

Ungt íslenskt sundfólk, á aldrinum 10 til 24 ára, sefur að meðaltali í sex og hálfa klukkustund á sólarhring, nokkuð minna en jafnaldrar þess. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn á svefnvenjum ungra íslenskra sundmanna sem jafnframt er sú fyrsta sem gerð er á Íslandi á þessum aldurshópi. Sigríður Lára Guðmundsdóttir, dósent í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands, kynnti niðurstöður rannsóknar sinnar á fundi um svefn og íþróttir hjá Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands (ÍSÍ) í dag.

Í rannsókninni var svefn 108 einstaklinga á aldrinum 10 til 24 ára skoðaður í viku. Á því tímabili voru morgunæfingar nokkrum sinnum í viku á virkum dögum kl. 5:30 og seinna um helgar. Hópnum var skipt í tvennt, 16 ára og eldri en 16 ára.

Þegar sundæfingar voru eldsnemma að morgni mældist svefn allra hópa marktækt skemmri en ef æfingar hófust eftir klukkan 7. Næturnar í aðdraganda snemmmorgunæfinga sváfu þau rétt rúmar fimm klukkustundir en yngri en 16 ára sváfu í fimm og hálfa klukkustund. Eftir því sem þau fóru á fleiri morgunæfingar í viku styttist meðalsvefntími yfir vikuna. Þrátt fyrir að sofa lengur um helgar náðu þau ekki upp ráðlögðum meðalsvefntíma. Þau eru langt undir þeim viðmiðum sem embætti landlæknis og Alþjóðaheilbrigðismálastofnun hafa gefið út, að sögn Sigríðar.

Svefnþörf er einstaklingsbundin en alla jafna er talað um að unglingar þurfi 9 tíma svefn og mælt er með 7-10 tíma svefni fyrir íþróttafólk.

„Þetta kemur á óvart því maður taldi að þeir sem hreyfa sig mikið þurfi að sofa meira til að ná góðri endurheimt. Þetta er mjög umhugsunarvert. Bæði út frá heilsufarssjónarmiðum, almennri líðan þeirra í skóla og daglegu lífi og auðvitað hvað varðar frammistöðu á æfingum og í keppni. Maður spyr sig hvað færðu mikið út úr sundæfingu snemma að morgni þegar þú hefur sofið í fimm tíma og ert 13 ára og átt skóladaginn eftir,“ segir Sigríður.

Sigríður Lára Guðmundsdóttir segir þau börn sem æfa sund vera …
Sigríður Lára Guðmundsdóttir segir þau börn sem æfa sund vera langt undir þeim svefnviðmiðum sem embætti landlæknis og Alþjóðaheilbrigðismálastofnun hafa gefið út. mbl.is/Árni Sæberg

Mikil sveifla á svefninum

Hún bendir á að það er mikill breytileiki á svefntíma þessa hóps. Suma morgna vakna þau klukkan fimm eða sjö og stundum klukkan 10 um helgar. Jafnvel er hægt að tala um þotuþreytu (e. jet lag) vegna mikilla sveiflna á svefninum.

Á síðustu árum hafa rannsakendur beint sjónum í auknum mæli að svefni og svefnvenjum og eru farnir að rannsaka hvaða áhrif lítill svefn hefur á heilsuna, að sögn Sigríðar.

Hvað er best fyrir börnin?

Niðurstaða rannsóknarinnar vekur upp margar spurningar sem vert er að velta upp og fá frekari umræðu innan sundsamfélagsins, segir Sigríður. „Við þurfum að ræða um hvað er best fyrir börnin. Þau eru metnaðargjörn og vilja ná langt en fæst virðast hafa þann aga sem þarf til að fara nógu snemma að sofa til að ná nægum svefni. Þá er spurning hvort þau séu kannski betur sett að fækka æfingunum og þá fá þau kannski meira út úr hverri og einni,“ spyr Sigríður.

Fyrri rannsóknir á tengslum svefnleysis og frammistöðu í íþróttum sýna að þegar fólk sefur lítið hefur það áhrif á skap og til dæmis minnkar öll taugalífeðlisfræðifærni, hámarksstyrkur og -þol minnkar, andleg skerpa og minni dalar og svo mætti lengi telja.

„Eftir því sem lengra líður frá helgi sést að frammistaða íþróttafólks dala og þau upplifa að allt verður erfiðara þegar líður á vikuna,“ segir Sigríður sem vonar að rannsóknin muni efla umræðu innan sundsamfélagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert