Óskýr ummæli í dómi MDE

Þingmennirnir Helga Vala Helgadóttir og Þorsteinn Víglundsson mættu á málþingið.
Þingmennirnir Helga Vala Helgadóttir og Þorsteinn Víglundsson mættu á málþingið. mbl.is/Eggert

Björg Thorarensen, prófessor við Háskóla Íslands, telur að túlka verði niðurstöðu Mann­rétt­inda­dóm­stóls Evr­ópu um brot á ákvæðum Mannréttindasáttmálans þannig að hún gildi aðeins um fjóra dómara Landsréttar þar sem dómsmálaráðherra vék frá tillögum hæfnisnefndar en ekki þannig að dóm­stóll­inn í heild sinni telj­ist ekki skipaður lög­um sam­kvæmt. Ummæli í dóminum um þetta séu hins vegar óskýr.

Þetta sagði hún á málþingi um dóm MDE vegna skipunar dómara í Landsrétti.

Hún bætti við að einn af kostum þess að skjóta málinu til yfirréttar væri að leita eftir skýrri niðurstöðu gagnvart „misvísandi ályktun“ MDE hvað þetta varðar. 

Björg sagði afleiðingar þess að Alþingi kaus í einu lagi um tillögu Sigríðar Á. Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, um skipan ellefu ráðherra hafi verið engar. Þingið hefði ekki getað komist að annarri niðurstöðu.

„Ég tel dóminn gefa til kynna, að það sem öllu skiptir við ummæli dómstólsins um galla á atkvæðagreiðslu Alþingis sé að markmið með aðkomu þingsins hafi ekki verið verið náð við skipun umræddra fjögurra dómara og eingöngu þeirra. Þar urðu mögulega beinar efnislegar afleiðingar af þeirri staðreynd að ekki var kosið beinlínis um tillögur ráðherra að víkja frá tillögum hæfnisnefndar,“ sagði Björg. 

„Á sama hátt segir það sig sjálft að afleiðingar þess að þingið kaus í einu lagi um tillögur ráðherra um skipun 11 umsækjenda sem byggðu að öllu leyti á mati hæfnisnefndarinnar, voru engar. Hvernig hefði þingið í raun getað komist að annarri niðurstöðu með kosningu um hvern og einn?“

Frá málþinginu í hádeginu en Björg situr lengst til hægri.
Frá málþinginu í hádeginu en Björg situr lengst til hægri. mbl.is/Eggert

Hún sagði algjöra þögn hafa ríkt í niðurstöðu MDE um skipan á öllum dómurunum í Landsrétt og nefndi að þungamiðjan í rökstuðningi í dómi dómstólsins hafi verið að um geðþóttaákvörðun dómsmálaráðherra hafi verið að ræða þegar dómararnir fjórir voru skipaðir í Landsrétt. Björg sagði þann rökstuðning ekkert hafa að gera með skipun hinna ellefu umsækjendanna.

Björg minntist á að umræða hafi verið uppi um að ekki væri hafið yfir vafa að Landsréttur væri lögmætt skipaður. Hún sagðist skilja þá umræðu og að því miður varpi staðan sem er uppi ákveðnum skugga á stöðu Landsréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert