Virtu ekki lokanir og rétt sluppu við snjóflóð

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. Ljósmynd/Gestur Hansson.

Tveir erlendir ferðamenn leituðu eftir aðstoð lögreglunnar á Vestfjörðum á mánudag eftir að hafa lokast inni á milli snjóflóða. Höfðu mennirnir virt veglokanir að vettugi. Þeim var bjargað en gert að greiða sekt.

Þetta kemur fram í Facebook-færslu lögreglunnar.

Um klukkan 18 á mánudaginn barst hjálparbeiðni frá tveimur erlendum ferðamönnum á bílaleigubíl. Þeir höfðu ekið yfir Hrafnseyrarheiði, úr Dýrafirði, og yfir í Arnarfjörð. Þeir sneru við þegar kom að Dynjandisheiði þar sem snjóflóð lokaði veginum.

„Munu þeir hafa ekið til baka en komið að nýföllnu snjóflóði sem runnið hafði yfir veginn Arnarfjarðarmegin í Hrafnseyrarheiðinni. Óskað var eftir aðstoð svæðisstjórnar björgunarsveitanna á norðanverðum Vestfjörðum og sóttu björgunarsveitarmenn frá Þingeyri og Flateyri ferðalangana.

Bifreið mannanna var skilin eftir í Arnarfirðinum og tók lögreglan á móti þeim þegar komið var með þá til byggða. Ferðalangarnir höfðu ekið fram hjá tveimur lokunarskiltum á leið sinni upp á Hrafnseyrarheiðina. Mönnunum var gert að greiða tilheyrandi sekt fyrir að virða ekki slíkar umferðarmerkingar,“ segir í færslu lögreglunnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert