Ekki í boði að hunsa barnaníðsefni

Því miður er spurnin eftir barnaníðsefni sífellt að aukast og …
Því miður er spurnin eftir barnaníðsefni sífellt að aukast og framboðið sömuleiðis, að sögn forseta alþjóðlegra samtaka sem berjast gegn barnaklámi og álíka efni á netinu. Myndin er úr safni. mbl.is/Eggert

Frá því að sérstök ábendingagátt um barnaklám og annað ólögmætt efni á netinu var opnuð hér á landi árið 2001 hafa yfir 5.400 tilkynningar borist, samkvæmt upplýsingum frá Barnaheillum, sem reka gáttina í samstarfi við ríkislögreglustjóra. Slíkar ábendingagáttir eða ábendingalínur eru reknar víða um heim og stór hluti þeirra á aðild að regnhlífarsamtökunum Inhope.

Fred Langford forseti Inhope er á landinu þessa dagana og í viðtali við mbl.is segist hann telja að magn barnaníðsefnis í umferð á netinu sé alltaf að aukast, en á árinu 2018 voru tilkynningar til ábendingalína sem eru innan Inhope yfir 10 milljónir alls.

Langford ræðir þessi mál og fleiri tengd í erindi sínu á ráðstefnu sem Barnaheill og fleiri félagasamtök standa fyrir í samstarfi við stjórnvöld í húsakynnum Háskóla Íslands í Stakkahlíð á morgun, sem stendur yfir frá kl. 14 til 16.

Síðan hann kom til landsins á miðvikudagskvöld er hann meðal annars búinn að vera að fræða fólk úr stjórnsýslunni um þá vinnu sem er í gangi í heimalandi hans Bretlandi, við að reyna að koma í veg fyrir að börn geti komist í klámefni með nýrri löggjöf, sem gerir klámsíðum skylt að sannreyna aldur notenda sinna.

Langford hefur verið aðstoðarframkvæmdastjóri Internet Watch Foundation í Bretlandi um árabil og í fyrra tók hann svo við forsetaembætti Inhope, í annað sinn. Hann hefur gert það að sínu aðalstarfi að berjast gegn ólögmætu efni á borð við barnaklám á netinu og auka alþjóðlegt samstarf, sem gerir eftirlitið skilvirkara og verður til þess að ólögmætt ofbeldisefni er fjarlægt fyrr.

Fred Langford er forseti Inhope, alþjóðlegra regnhlífarsamtaka ábendingalína um barnaníðsefni …
Fred Langford er forseti Inhope, alþjóðlegra regnhlífarsamtaka ábendingalína um barnaníðsefni og aðra óværu á netinu. Ljósmynd/Internet Watch Foundation

Hann segir að það sem að drífi hann helst áfram í starfi sé að reyna að hjálpa fórnarlömbum stafræns kynferðisofbeldis við að eyða glæpnum af netinu, en lenda ekki í því, sem gerist því miður oft, að upplifa það að brotið sé á þeim aftur og aftur og aftur, þegar myndir eða myndskeið skjóta aftur upp kollinum.

Sífellt fljótari að eyða út efni

„Inhope snýst um upplýsingaflæði og samvinnu um það hvernig best er að taka á móti tilkynningum um ólöglegt efni, hvernig er hægt að rekja uppruna þess og um samstarf við lögregluyfirvöld og netgeirann varðandi það að fá þessu ólöglega efni eytt út,“ segir Langford.

Hann segir það markmið Inhope að stækka samtökin, en í dag eru einhvers konar ábendingalínur í um það bil 75 löndum á heimsvísu. „Það eru yfir 200 lönd í heiminum og þar til að við gerum öllum kleift að tilkynna ólöglegt efni mun okkur líða eins og verkefni okkar sé ólokið,“ bætir hann við.

En hvernig er samstarfið á milli ábendingalína og yfirvalda, jafnvel í ólíkum löndum? Langford lýsir því sem svo að ef einhver Íslendingur tilkynni ólögmætt efni í gegnum ábendingagátt Barnaheilla og ríkislögreglustjóra, sem sé hýst til dæmis í Hollandi, færist málið í hendur hollensku ábendingalínunnar, sem leiti með málið til þarlendra löggæsluyfirvalda.

Þetta samstarf skilar því að ábendingar skila sér sífellt hraðar á rétta staði og hið ofbeldisfulla efni hverfur hraðar af alnetinu.

„Ef efnið er ekki hýst á Íslandi hefði það áður verið í höndum íslensku ábendingalínunnar að hafa samband við hýsingaraðilinn um að láta fjarlægja efnið,“ segir Langford, en vandamálið við það var að erlend samtök höfðu sjaldnast vald til þess að óska eftir því að efni væri fjarlægt. Ferlin voru þannig hæg og barnaníðsefni gat grasserað.

Eftirspurnin sífellt að aukast

Langford segir að hann telji að framboðið af barnaníðsefni og öðru ólögmætu efni af svipuðum toga á netinu sé sífellt að aukast. Þessa tilfinningu sína byggir hann á gögnum sem hann hefur frá bæði Inhope og IWF í Bretlandi, sem sýna fram á 10-15% árlega aukningu í tilkynningum um slíkt efni.

En við erum líka orðin betri í að finna svona efni og lögregluyfirvöld víða eru byrjuð að beita forvirkum rannsóknum, til dæmis með því að fylgjast með spjallborðum barnaníðinga á netinu og fjarlægja svo efnið nánast um leið og það birtist. Þannig þarf ekki alltaf að bíða eftir að almennur borgari rekist óvart á efnið á netinu og tilkynni það til viðeigandi yfirvalda, sem er framför.

Langford minnir á að notendum netsins fjölgi stöðugt á heimsvísu og að það sé heilt yfir afar jákvætt, en því miður sé alltaf minnihluti notenda sem ætli sér að „misnota þá gjöf sem netið er“. Það þýði að spurnin aukist eftir barnaníðsefni.

„Þegar það er eftirspurn, þá verður því miður gjarnan til framboð,“ segir Langford.

Látið vita af öllu sem þið sjáið

Spurður um það hvernig almennir borgarar geti hjálpað til í baráttunni gegn barnaklámefni og því ofbeldi gegn börnum sem í því felst, segir Langford mikilvægast að fólk láti vita.

„Fyrir almenning snýst þetta um að hunsa þetta ekki. Ef þið sjáið svona efni, ekki hugsa, „Ó, þetta er hræðilegt,“ og eyða svo vafrasögunni. Ef þið sjáið þetta, vinsamlegast tilkynnið þetta. Jafnvel þó að það sé bara grunur um að þarna sé um barnaklámefni að ræða,“ segir Langford og bætir við að oft sé erfitt að greina á milli ákveðinna gerða af klámefni og svo barnakláms.

Það skiptir máli að tilkynna um ólögmætt efni til ábendingalína, …
Það skiptir máli að tilkynna um ólögmætt efni til ábendingalína, sem síðan eru í alþjóðlegu samstarfi um úrvinnsluna og eyðingu efnisins. Skjáskot af vef Inhope

„Þetta snýst allt um að tilkynna og líka um að standa uppi í hárinu á fólki sem gerir til dæmis grín að svona efni. Einnig snýst þetta um fræðslu, að fræða börnin, um örugga hegðun á netinu og láta þau átta sig á því hvað það að birta mynd eða senda á netinu gæti þýtt fyrir þau,“ segir Langford og bætir við að margar af myndunum sem eru í dreifingu hjá barnaníðingum séu upphaflega teknar af barninu sjálfu, viðfangi myndarinnar.

„Ég hvet líka fólk til þess að styðja við þá sem halda úti ábendingagáttum á netinu, því þetta er hörkuvinna og ógeðfelld. Það er ekki ánægjulegt að skoða svona efni,“ segir Langford.

Ný ábendingalína að fara í loftið

Hér á landi fara ábendingarnar sem berast beint til lögregluyfirvalda og eru teknar til skoðunar þar, en fyrstu árin sem ábendingalínan var starfandi var það verkefni í höndum starfsmanns hjá Barnaheillum.

Aldís Yngvadóttir, verkefnastjóri hjá Barnaheillum, segir í samtali við mbl.is að sá starfsmaður hafi verið í stöðugri handleiðslu hjá sálfræðingi, starfs síns vegna.

Hún segir að á næstunni verði ný og uppfærð ábendingalína opnuð á vegum Barnaheilla og ríkislögreglustjóra, en stefnt er að opnun gáttarinnar í apríl. Viðmótið verður á íslensku, ensku, pólsku og taílensku.

Ábendingalína á vef Barnaheilla

Vefsíða Inhope, þar sem fræðast má um alþjóðlegt samstarf ábendingalína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert