Enginn skólaakstur komi til verkfalls

Fossvogsskóli í Reykjavík.
Fossvogsskóli í Reykjavík. mbl.is/Eggert

Vegna boðaðs verkfalls hópbifreiðastjóra fellur skólaakstur, að óbreyttu, niður í Reykjavík á morgun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá skóla- og frístundasviði sem hefur verið sent á skólastjórnendur. Þetta þýðir m.a. að engar rútuferðir verða, að óbreyttu, í boði fyrir börn í Fossvogsskóla í Reykjavík á morgun.

Skólastjórnendur hafa áframsent tilkynninguna á foreldra barna í skólanum og er tilkynningin svohljóðandi:

„Vegna boðaðs verkfalls hópbifreiðastjóra fellur skólaakstur, að óbreyttu, niður í Reykjavík á morgun, föstudag. Þetta á við akstur í og úr skóla, akstur í sund og akstur í íþróttir. Akstursþjónusta fatlaðra verður með óbreyttu sniði eins og áður hefur komið fram.

Frístundaakstur er á vegum hvers og eins íþróttafélags. Vinsamlegast verið í sambandi við viðkomandi félag varðandi íþróttaæfingar.“

Sem kunnugt er hefjast verkföll hjá félagsmönnum í Eflingu á miðnætti náist ekki samningar í dag. Rútubílstjórar eru á meðal þeirra sem munu leggja niður störf.

Nýverið var ákveðið að rýma Fossvogsskóla vegna myglu. Börnin hafa fengið aðstöðu í Laugardalnum, m.a. í húsnæði KSÍ og Þróttar, og hófst skólastarfið að nýju í þessari viku. Það fyrirkomulag hefur verið fyrir hendi að rútur hafa ekið í Laugardalinn með börnin frá Fossvogsskóla á morgnana og til baka að loknum skóladegi. Það verður hins vegar ekki í boði á morgun náist ekki samningar fyrir miðnætti.

Uppfært klukkan 19.06:

Fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg að sundkennsla muni víða falla niður.

Foreldrar og aðstandendur nemenda eru hvattir til að sameinast um akstur til og frá skóla þar sem það á við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert