Gagnrýnir „plebbaskap“ þingmanna

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

„Sumir þingmenn halda að það sé hlutverk þeirra að hafa eftirlit með öllu sem gerist í samfélaginu. Þingmenn sem geta ekki einu sinni haft sæmilegt eftirlit með sjálfum sér hafa ekkert með slík eftirlitsstörf að gera.“

Þetta segir Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Facebook-síðu sinni í dag vegna fundar allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis í morgun þar sem fjallað var um aðgerðir lögreglunnar vegna mótmæla hælisleitenda á Austurvelli í Reykjavík að undanförnu. Fundurinn var haldinn að beiðni Pírata.

Brynjar segir engin takmörk virðast vera fyrir „plebbaskap einstakra þingmanna“ og bendir á að sérstök nefnd hafi verið sett á laggirnar árið 2017 til þess að fara yfir kvartanir og aðfinnslur vegna starfshátta lögreglunnar.

mbl.is