Skipulags- og samgönguráð Reykjavíkur hefur farið þess á leit að hönnun 17 hæða byggingar við Skúlagötu 26 verði endurskoðuð. Hótel er fyrirhugað í turninum en sunnan hans verður 28 íbúða fjölbýlishús.
Þetta varð ljóst þegar fulltrúar skipulags- og samgönguráðs tóku undir umsögn fagrýnihóps varðandi útlit og fyrirkomulag fyrirhugaðra bygginga við Skúlagötu og Vitastíg.
Fram kemur í fundargerð skipulags- og samgönguráðs að „turninn sé of einsleitur og uppbrot sáralítið“.
„Fulltrúar ráðsins benda á að hótelbyggingin verður mjög áberandi í borgarmyndinni og því afar mikilvægt að þarna verði vandað til verka. Við vekjum athygli á því að í Aðalskipulagi 2010-2030 er lögð sérstök áhersla á gæði í byggingarlist og sama má segja um skilmála í deiliskipulagi fyrir þennan reit. Bygging þessi mun verða hluti af sjónlínu borgarinnar um ókomna tíð og því er gerð krafa um vandað kennileiti og byggingarlist í hæsta gæðaflokki sem tekur mið af þessari einstöku staðsetningu. Við teljum nauðsynlegt að nú verði staldrað við og hönnun fyrirhugaðra bygginga, einkum hótelsins, endurskoðuð,“ segir þar orðrétt, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.