Kröpp lægð á hraðri siglingu

Kort/Veðurstofa Íslands

Suðvestankaldi og él á vestanverðu landinu í dag en yfirleitt bjart eystra og hiti kringum frostmark. Langt suður í hafi er kröpp og ört dýpkandi lægð á hraðri siglingu norður á bóginn. Eftir miðnætti er lægðin farin að nálgast suðurströndina og eykst þá vindur af norðaustri. Gengur í norðaustanhvassviðri eða -storm með snjókomu og hríðarverði austan til seint í nótt og í fyrramálið og hlýnar eystra. 

Upp úr hádegi á morgun er lægðin komin austur fyrir land og snýst þá í norðvestanstorm eða rok með éljagangi austan til, en annars hægari vestan- og norðvestanátt og él á víð og dreif. 

Þessi slæma veðurspá fyrir austurhelming landsins ætti að hvetja ökumenn og ferðalanga þar til að grandskoða ferðaáætlanir sínar því vænta má samgöngutruflana á þeim slóðum, segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. 

Veðurspá fyrir næstu daga

Spáð er suðvest­an 8-15 m/​s og élj­um en skýjuðu með köfl­um og úr­komu­litlu aust­an­lands. Hæg­ari sunna­nátt í kvöld. Hiti kring­um frost­mark að deg­in­um, en sums staðar vægt frost fyr­ir norðan.

Geng­ur í norðaust­an 18-23 með slyddu eða rign­ingu suðaust­an til í nótt, en síðar einnig norðaust­an til með snjó­komu eða skafrenn­ingi þar. Snýst í norðvest­an 18-25 með élja­gangi aust­an til á morg­un, en ann­ars hæg­ari vest­an- og norðvestanátt og él. Hlýn­ar við aust­ur­strönd­ina á morg­un.

Á föstu­dag:
Geng­ur í norðan og norðvest­an 15-23 m/​s með snjó­komu og skafrenn­ingi á A-verðu land­inu, en mun hæg­ara og úr­komu­lítið V-til. Snýst í vest­an 10-18 með élj­um V-lands und­ir kvöld, en dreg­ur þá jafn­framt úr vindi og ofan­komu eystra. Hiti kring­um frost­mark. 

Á laug­ar­dag:
Sunn­an 5-10 m/​s og úr­komu­lítið fram­an af degi, en geng­ur síðan í sunn­an og suðvest­an 10-15 með snjó­komu eða slyddu, fyrst SV-lands. Kóln­andi veður. 

Á sunnu­dag:
Norðvest­læg átt með élj­um eða snjó­komu, en rof­ar til fyr­ir sunn­an. Læg­ir um kvöldið og létt­ir til. Hiti kring­um frost­mark. 

Á mánu­dag:
Vax­andi sunna­nátt, hlýn­ar í veðri og fer að rigna, en lengst af bjartviðri NA-til. 

Á þriðju­dag:
Snýst í suðvestanátt með élj­um, en létt­ir til fyr­ir aust­an og kóln­ar aft­ur. 

Á miðviku­dag:
Lík­lega stíf suðvestanátt með slyddu eða rign­ingu en þurrt að kalla fyr­ir aust­an.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert