Sýklalyfjaónæmi til staðar í íslensku búfé

Við skimun fyrir ESBL/AmpC-myndandi E.coli-bakteríum voru nú í fyrsta skipti …
Við skimun fyrir ESBL/AmpC-myndandi E.coli-bakteríum voru nú í fyrsta skipti tekin sýni úr íslenskum lömbum. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Sýklalyfjaónæmi er til staðar í íslensku búfé og horfa þarf til fleiri þátta en innflutnings til að sporna við frekari útbreiðslu. Þetta kemur fram í frétt á vef Matvælastofnunar, sem segir vöktun stofnunarinnar á sýklalyfjaónæmi í kjöti og dýrum á síðasta ári sýna þetta.

Ónæmi fyrir sýklalyfjum í íslensku búfé er hins vegar sagt vera minna en í flestum Evrópulöndum, en þó hafi ónæmi í íslenskum lömbum og innfluttu svínakjöti vakið athygli.

Vöktunin náði til tæplega 900 bakteríustofna úr sýnatökum Matvælastofnunar, framleiðenda og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga. Voru sýni tekin úr svínum, alifuglum og lömbum og innlendu og erlendu svína- og alifuglakjöti, en sýnatakan náði bæði til afurða sem komin voru á markaði og sýna úr afurðastöðvum.

Vöktunin fól í sér annars vegar skimun á sýklaónæmi í búfé og búfjárafurðum og hins vegar prófun á ónæmi í sjúkdómsvaldandi örverum í búfé og búfjárafurðum.

Sýni tekin úr lömbum í fyrsta skipti

Til að meta umfang sýklalyfjaónæmis var skimað fyrir E.coli-bendibakteríum, til að meta algengi ónæmis í viðkomandi dýrategund, og ESBL/AmpC-myndandi E.coli-bakteríum sem bera gen sem hafa þann eiginleika að mynda ónæmi gegn mikilvægum sýklalyfjum og eru líklegri til að vera fjölónæmar.

E.coli-bendibakteríur eru útbreiddar í þörmum manna og dýra og gefa vísbendingu um ástand þarmaflórunnar. Í skimuninni reyndist fjórðungur E.coli-bendibaktería úr þörmum kjúklinga sem voru prófaðar fyrir sýklalyfjaónæmi ónæmur fyrir einum eða fleiri sýklalyfjaflokkum. Er þetta svipað hlutfall og greindist árin 2016 og 2017 og er með því lægsta sem greinst hefur í Evrópu undanfarin ár.

Við skimun fyrir ESBL/AmpC-myndandi E.coli-bakteríum voru tekin sýni úr alifuglum, svínum og í fyrsta skipti úr íslenskum lömbum. Bakterían greindist í 4% lamba og er það álíka hlutfall og greinst hefur í þörmum íslenskra alifugla og svína undanfarin ár. Ekki er vitað hvernig ónæmar bakteríur bárust í lömbin, né heldur hvort um aukningu sé að ræða.

Hlutfall bakteríanna á Íslandi í alifuglum og svínum er svipað og á Norðurlöndunum en er þó lægra en í öðrum Evrópulöndum.

Salmonella greindist í vottuðu kjöti 

Salmonellustofnar sem greindust í alifuglarækt árið 2018 voru allir næmir fyrir öllum sýklalyfjum. Tveir stofnar sem greindust í svínarækt reyndust hins vegar vera ónæmir, þar af annar fjölónæmur. Í svínakjöti á markaði reyndust tveir stofnar vera ónæmir og voru þeir báðir fjölónæmir. Kjötið, sem var frá Spáni, var innkallað, en því hafði fylgt salmonelluvottorð við innflutning.

Þá greindist einn ónæmur kampýlóbakterstofn í alifuglarækt og aðeins fyrir einum sýklalyfjaflokki. 

Við skimun fyrir MÓSA (methicillin-ónæmir Staphylococcus aureus) í svínarækt fannst engin baktería, en sú baktería hefur breiðst út meðal búfénaðar í Evrópu og víðar, einkum í svínarækt. Segir MAST það „fagnaðarefni“ að MÓSA hafi ekki enn greinst í íslenskri svínarækt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert