Tapa 250 milljónum á dag

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ef allt fer á versta veg og Efling og VR halda verkföllum sínum til streitu tapast 250 milljónir á dag í ferðaþjónustu hér á landi þá daga sem verkföllin standa yfir. Þetta segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, í samtali við Spegilinn á Rás 2. 

„Þetta er mjög alvarlegt ástand sem mun skapast ef verkfallið hefst á miðnætti,“ segir Jóhannes Þór, en samkvæmt áætlun fara hótelstarfsmenn og hópbifreiðastjórar Eflingar og VR, og jafnvel allir hótelstarfsmenn og rútubílstjórar á félagssvæði verkalýðsfélaganna, í sólarhringsverkfall.

Verkalýðsfélögin og atvinnurekendur greinir á um túlkun á vinnulöggjöf og segir Jóhannes Þór mjög þungt hljóð í fólki. „Við höfum hins vegar lagt áherslu á það að fólk sem er ekki í þessum stéttarfélögum megi sinna sinni vinnu,“ segir Jóhannes, en hann hefur heyrt frá félagsmönnum sínum að til standi að koma í veg fyrir að rútur aki af stað á morgun þrátt fyrir að bílstjórar séu ekki í Eflingu.

„Við erum með gríðarlegan fjölda ferðamanna sem eru á hótelum sem þurfa að komast bæði til og frá Keflavíkurflugvelli með hópferðabílum, þurfa að fara í sínar ferðir sem þeir eiga bókaðar á morgun,“ segir Jóhannes Þór. „Hótelin hafa þurft að loka á bókanir þessa daga, þannig að tjónið er þegar orðið mjög mikið. Ofan á það fer það orðspor um heiminn að hér sé allt í hvínandi vitleysu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert