Tveir úr Norrænu stöðvaðir

Ferjan Norræna.
Ferjan Norræna.

Við komu ferjunnar Norrænu til Seyðisfjarðar á þriðjudaginn voru tveir farþegar á leið inn í landið stöðvaðir.

Annar þeirra framvísaði fölsuðum skilríkjum og var hann handtekinn og í framhaldi tekinn til yfirheyrslu hjá lögreglu. Í ljós kom að um var að ræða stolin og breytifölsuð skilríki, að því er kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi.

Maðurinn var færður fyrir Héraðsdóm Austurlands sama dag. Daginn eftir féll yfir honum dómur og hlaut hann 30 daga skilorðsbundið fangelsi.

Viðkomandi aðili óskaði síðan eftir hæli hér á landi og er mál hans komið í ferli hjá yfirvöldum.

Hinum aðilanum, sem var stöðvaður, hafði verið brottvísað af Schengen-svæðinu og var honum frávísað frá Íslandi til baka til Danmerkur. Viðkomandi var settur í umsjón áhafnar ferjunnar með banni um að fara í land hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert