Um 300 milljónir í húsvernd

Hljómskálinn í Hljómskálagarði.
Hljómskálinn í Hljómskálagarði. mbl.is/Arnaldur Halldórsson

Minjastofnun hefur úthlutað rúmlega 300 milljónum króna úr húsafriðunarsjóði. Samtals voru veittir 202 styrkir til ýmissa verkefna. Sjóðnum bárust 267 umsóknir og námu beiðnirnar tæplega einum milljarði króna.

Hæsti styrkurinn í ár, 6,5 milljónir, rann til elsta hverfisins á Egilsstöðum sem skilgreint er sem verndarsvæði í byggð. Hæsta styrki til húsa og mannvirkja, 5 milljónir króna, fengu Hljómskálinn í Reykjavík, Verkamannabústaðirnir við Hringbraut, Amtmannshúsið á Akureyri og Fífilbrekka að Reykjum í Ölfusi.

Úthlutað í sex flokkum

Úthlutað var í sex flokkum. 41 styrkur, samtals um 63 milljónir króna, rann til friðlýstra kirkna víðs vegar um land. Hæsti styrkur var 4 milljónir króna og fengu hann Holtastaðakirkja, Krosskirkja og Ljósavatnskirkja. Í flokknum friðlýst hús og mannvirki voru veittir 37 styrkir fyrir um 77 milljónir króna. Í flokknum friðuð hús og mannvirki, en þar er um að ræða byggingar sem eru sjálfkrafa friðaðar við 100 ára aldur, voru flestir styrkirnir, 95 að tölu, og nam styrkupphæðin samtals tæplega 125 milljónum króna. Í flokknum önnur hús og mannvirki voru veittir 22 styrkir, samtals að upphæð um 21 milljón króna. Hæsti styrkurinn, 4 milljónir króna, rann til Laxabakka við Kjós. Stöpull undir styttu af Héðni Valdimarssyni fékk einnar milljónar krónu styrk. Í flokknum rannsóknir voru veittir fjórir styrkir, samtals fyrir 4 milljónir króna. Loks voru þrír styrkir veittir í flokknum verndarsvæði í byggð, samtals fyrir tæplega 12 milljónir króna. Auk styrksins til Egilsstaða voru gamli bærinn á Blönduósi og Selvogur í Ölfusi styrktir. gudmundur@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert