Verkföll að skella á í kvöld

mbl.is/​Hari

Sólarhringsverkföll ríflega tvö þúsund félaga í VR og Eflingar sem beinast að 40 hótelum og hópbifreiðafyrirtækjum skella á að óbreyttu á miðnætti í kvöld. Sáttafundur hefur verið boðaður í kjaradeilu félaganna og SA kl. 10 í dag.

Vaxandi óvissa er í kjaradeilunum eftir að Guðbrandur Einarsson, formaður Landssambands íslenskra verslunarmanna, sagði af sér í gær og viðræðum sambandsins við SA var slitið. Guðbrandur segir að fulltrúar VR við samningsgerðina hafi horft til samstöðu með öðrum verkalýðsfélögum í stað þess að reyna til þrautar að ljúka samningum, en góður gangur hafi verið í samningaviðræðum. „Ég álít að þetta bandalag fjórmenninganna sé það sterkt að það sé á þessum tímapunkti ekki hægt að rjúfa það. Ég tel að það sem var á borðinu í síðustu viku sé leið til lausnar. Það að vilja ekki fara þá leið sýnir að menn eru tilbúnir að beita öðrum vinnu brögðum til að ná því fram sem þeir telja ásættanlegt,“ segir hann. „Ég er að upplifa eitthvað nýtt þessa dagana. Ég hef ekki vanist því að landssambandið og stærsta félagið fari sitt í hvora áttina í samningsgerð.“

Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent við Háskóla Íslands, segir forvitnilegt að sjá þann klofning sem orðið hafi innan verkalýðshreyfingarinnar, þar sem fræðin séu á því að einhuga og samstiga hreyfing eigi betra með að ná árangri. Gylfi bætir við að samstarf verkalýðsfélaganna fjögurra hafi í raun riðlað fyrri háttum, þar sem Flóabandalagið hafi dregið vagninn og hin félögin svo fylgt á eftir. „Þetta er allt öðruvísi bandalag,“ segir Gylfi í umfjöllun um kjaraviðræðurnar í Morgunblaðinu í dag og bendir á að félögin fjögur séu ólík og sameiginlegu snertifletirnir séu því í grunnhagsmunum eins og húsnæðismálum og verðtryggingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert