Aftakaveður á leiðinni

Umferðin mun væntanlega ganga hægt síðdegis út af snjókomunni á …
Umferðin mun væntanlega ganga hægt síðdegis út af snjókomunni á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Júlíus

Kröpp og óvenjudjúp lægð skammt suður af landinu hreyfist allhratt norðaustur. Lægðin sú arna veldur norðan- og norðaustanstormi eða -roki og blindhríð fyrir norðan og austan og líklega einhverjum samgöngutruflunum. Mjög hefur snjóað fyrir norðan en óveðrið er ekki skollið á.

Athygli er vakin á gulum og appelsínugulum viðvörunum, sem í gildi eru í dag. Hægari vestan- og norðvestanáttir suðvestan til á landinu og snjókoma með köflum en mögulega snjóar talsvert á höfuðborgarsvæðinu síðdegis þannig að væntanlega á umferðin eftir að ganga hægt.

25-30 cm á nokkrum klukkustundum

Gul viðvörun tekur gildi á höfuðborgarsvæðinu klukkan 13 og gildir til klukkan 21 í kvöld. Líkur eru á að töluvert geti snjóað á höfuðborgarsvæðinu eftir hádegi og eru spár að sýna um 25-30 cm af snjó á nokkrum klukkustundum. Snjókomubeltið er tiltölulega mjótt um sig og breytingar á staðsetningu þess geta haft töluverð áhrif á úrkomumagnið. Áhrifin yrðu fyrst og fremst fólgin í samgöngutruflunum innan höfuðborgarsvæðisins.

Dregur síðan heldur úr vindi og úrkomu seint í kvöld og nótt. 

Í dag er stórstreymt og þegar við bætist mjög lágur loftþrýstingur og hvass vindur getur sjór gengið á land og valdi tjóni. Menn eru því hvattir til að tryggja vel báta sína og vörur og tæki við sjávarsíðuna, segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Appelsínugul viðvörun hefur tekið gildi á Norðurlandi eystra, Austurlandi að Glettingi og á Austfjörðum. Afar líklegt er að samgöngur fari úr skorðum og er spáð norðanstormi og stórhríð á þessum svæðum þar sem vindstyrkur verður líklega 18-25 m/s. 

Veðurspá fyrir næstu daga

Sunnan- og suðvestankaldi og slydda eða snjókoma með köflum á morgun, en úrkomulaust að kalla norðaustan til. Hiti yfirleitt kringum frostmark að deginum

Gengur í norðaustan og norðan 18-25 m/s með slyddu eða snjókomu N- og A-lands, en rigningu við A-ströndina. Hægara og úrkomuminna SV-lands. Snýst í norðvestan 20-28 á austanverðu landinu upp úr hádegi, en annars hægari vestan- og norðvestanátt og snjókoma eða él með köflum, en 18-25 syðst fram á kvöld. Dregur síðan heldur úr vindi og úrkomu seint í kvöld og nótt. Sunnan og suðvestan 8-15 og slydda eða snjókoma með köflum á morgun, en úrkomulaust að kalla NA-til. Hiti yfirleitt kringum frostmark að deginum.

Á laugardag:

Sunnan og suðvestan 8-15 m/s og snjókoma eða slydda með köflum, en lengst af bjart og þurrt NA-til. Hiti kringum frostmark. 

Á sunnudag:
Norðlæg átt, 8-13 m/s og dálítil snjókoma eða él, bjartviðri fyrir sunnan og hiti kringum frostmark. Lægir um kvöldið, léttir til og kólnar. 

Á mánudag:
Gengur í hvassa suðlæg átt með hlýindum og rigningu, en lengst af þurrviðri NA-lands. 

Á þriðjudag:
Hvöss suðvestanátt og kólnar aftur með éljum, en léttir til fyrir austan. 

Á miðvikudag:
Útlit fyrir hvassa suðvestanátt með hlýindum og talsverðri vætu, en þurrt að kalla eystra. 

Á fimmtudag:
Líklega áfram suðvestanátt með éljum, en slyddu eða rigningu SA-til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert