Dómaraskipun ekki fyrirstaða

Dómur MDE hafði ekki áhrif á það hvort Hæstiréttur staðfesti …
Dómur MDE hafði ekki áhrif á það hvort Hæstiréttur staðfesti dóm Landsréttar. mbl.is/Hallur Már

Einn þeirra dómara sem dæmdi í máli Glitnis gegn Stundinni fyrir Landsrétti var Ragnhildur Bragadóttir sem er einn af fjórum dómurum sem skipaðir voru í embætti dómara í ferli sem Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) hefur gert athugasemd við. Hæstiréttur staðfesti í dag dóms Landsréttar í málinu.

Fram kom á vef Hæstaréttar í síðustu viku að fyrirspurn hafi verið send málaðilum þar sem spurt var hvort þeir hygðust fara fram á ómerkingu dóms Landsréttar vegna niðurstöðu MDE. Báðir tilkynntu að þeir myndu ekki krefjast þess.

Hæstiréttur sá ekkert því til fyrirstöðu að dæma í málinu og í kjölfarið staðfesta dóm Landsréttar.

„Aðilar máls verða að vega og meta það hver fyrir sig hvaða líkur séu á því að fá einhverja aðra niðurstöðu ef málið verður endurupptekið og dæmt af öðrum dómurum,“ var haft eftir Björgu Thorarensen, prófessor í Morgunblaðinu í síðustu viku vegna dóms MDE.

Sagði hún jafnframt að ekkert gæfi til kynna í því máli sem var fyrir MDE að efnisleg niðurstaða Landsréttar í dómsmálum væri einhver önnur vegna setu þessa dómara. Benti hún jafnframt á að dómur MDE snéri að skipan dómara, en ekki málsmeðferð sem slíkri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert