Ferðamenn rólegir yfir verkfallinu

Chong (t.v.) og Jocelyn (t.h.) voru afar róleg yfir verkfallsaðgerðum …
Chong (t.v.) og Jocelyn (t.h.) voru afar róleg yfir verkfallsaðgerðum dagsins. mbl.is/Árni Sæberg

Ferðamenn í anddyri Grand hótels Reykjavík virtust ekki kippa sér mikið upp við verkfall hótelstarfsfólks sem hófst á miðnætti. Starfsfólk á 40 hótelum lagði niður störf á miðnætti í gær og lýkur þessum fyrsta verkfallsdegi á miðnætti. Allt virtist með kyrrum kjörum á hótelinu meðan verkfallsverðir Eflingar gengu um svæðið.

Þeir ferðamenn sem mbl.is ræddi við sögðust allir hafa fengið morgunmat í morgun og ekki tekið eftir neinu. Einn hópur frá Singapúr sagðist hafa fengið skilaboð um að rútuferð hans hefði verið frestað en það hafi verið vegna veðurs ekki verkfalls. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, var meðal þeirra sem sinntu verkfallsvörslu á Grand hóteli fyrir hádegi í dag. 

Blaðamaður fylgdi verkfallsvörðum um þvottaherbergi hótelsins þar sem gengið var úr skugga um að enginn væri að störfum. Verkfallsverðir fengu einnig aðgengi að eldhúsi hótelsins til að athuga að allt væri með felldu. 

„Ég held því miður að það séu ýmis verkfallsbrot í gangi víðs vegar. Það sem við gerum er að skrá allt niður og förum svo yfir þau. Við munum svo reyna að ná tali af okkar fólki til að þess að láta þau fara yfir þetta með okkur,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.  

Að öðru leyti sagði Sólveig verkfallið ganga vel. „Við fórum í kröfugöngu og vorum með kröfustöðu fyrir utan hótel og enduðum svo fyrir utan hús atvinnulífsins. Það gekk allt mjög vel og mikill hugur í fólki. Svo erum við í verkfallsvörslu um allt.“

Spurð um hvernig hafi gengið að manna verkfallsvörsluna segir Sólveig það hafa gengið vel. „En þetta er svo víðfeðmt þannig að við skulum sjá hvernig gengur.“

Úlfar Finnbjörnsson, yfirmatreiðslumeistari á Grand hóteli og Salvör Lilja Brandsdóttir …
Úlfar Finnbjörnsson, yfirmatreiðslumeistari á Grand hóteli og Salvör Lilja Brandsdóttir hótelstjóri tóku vel á móti verkfallsvörðum Eflingar. Verkfallsvörðum var m.a. hleypt inn í eldhús hótelsins. mbl.is/Árni Sæberg

Salvör Lilja Brandsdóttir, hótelstjóri á Grand hóteli Reykjavík, fylgdi verkfallsvörðum um hótelið. Spurð sagði hún allt hafa gengið vel í morgun. Þá fer allt aftur á fullt á miðnætti, þegar verkfallinu lýkur. 

Samstöðufundur rútubílstjóra hófst klukkan 12:00 í Vinabæ. Bækistöðvar verkfallsvaktar í dag eru í Vinabæ. Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, Guðmundur Baldursson, stjórnarmaður í Eflingu, Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, og Sólveig Anna flytja þar ávörp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert