Fundað hjá WOW air

Frá höfuðstöðvum WOW air í Borgartúni.
Frá höfuðstöðvum WOW air í Borgartúni. mbl.is/Hari

Boðað var til starfsmannafundar í höfuðstöðvum WOW air í Borgartúni kl. 14. Svanhvít Friðriksdóttir upplýsingafulltrúi flugfélagsins ræddi við mbl.is fyrir fundinn og af svörum hennar mátti dæma að ekki stæði til að færa starfsmönnum nein váleg tíðindi.

„Það er bara verið að tala við starfsfólkið, ekkert eitthvað sérstakt,“ sagði Svanhvít þegar blaðamaður spurði um tilefni fundarins. Hún bætti við að nú væru viðræður í gangi við Icelandair og að hún gæti ekkert tjáð sig nánar, af þeim sökum.

Fjórir dagar til stefnu

Viðræður Icelandair og WOW air um mögulega aðkomu fyrrnefnda flugfélagsins hófust í dag og stjórnvöld, fjölmiðlar og almenningur fylgjast vel með gangi mála, enda mikið í húfi fyrir íslenskt efnahagslíf.

Flugfélögin gefa sér fjóra daga til viðræðna og því ljóst að framtíð WOW air ætti að liggja fyrir á mánudag, en á mánudag þarf WOW air að standa skil á 150 milljóna króna vaxtagreiðslu vegna skuldabréfa sem félagið gaf út í september síðastliðnum.

Viðræður Icelandair og WOW air munu standa yfir um helgina.
Viðræður Icelandair og WOW air munu standa yfir um helgina. mbl.is/Elín Arnórsdóttir

Fylgst er grannt með, sem áður segir, og fékk mbl.is veður af því núna eftir hádegið að verið væri að taka niður auglýsingaskilti frá WOW air á Keflavíkurflugvelli. Öðru slíku var þó komið upp í staðinn.

„Við vorum bara að „öppdeita“. Nú er ég líka yfir markaðsmálunum og maður vill nú stundum endurnýja auglýsingar. Það er búið að vera á döfinni núna í þrjár vikur og það voru menn fengnir í það í dag,“ segir Svanhvít.

Svanhvíti þótti merkilegt að fregnir af þessari uppfærslu á auglýsingaskiltum skyldu hafa ratað til blaðamanns, en þær upplýsingar fengust einnig frá Isavia að einfaldlega hefði verið að skipta um auglýsingu frá flugfélaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert