„Fundað stíft þar til annað kemur í ljós“

Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR hér til vinstri. Mynd frá …
Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR hér til vinstri. Mynd frá fundi deiluaðila í Karphúsinu í febrúarmánuði. mbl.is/Hari

Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR segist eiga von á því að deiluaðilar muni funda stíft þar til annað kemur í ljós. „Það eina sem ég get sagt er að við erum að ræða saman og það er jákvætt, ég má ekkert tjá mig um þetta annars,“ sagði Ragnar í samtali við blaðamann áðan, en sem kunnugt er hefur ríkissáttasemjari sett deiluaðila í algjört fjölmiðlabann um gang viðræðna.

Ragnar gat ekki svarað því hvort fundað yrði í húsakynnum ríkissáttasemjara í dag, en segir VR vera að „vinna á fullu“ innandyra hjá sér. „Ég á von á því að það verði fundað stíft þar til að annað kemur í ljós,“ var það eina sem Ragnar lét eftir sér hafa.

Hann segir að auk þess sé fylgst með verkfallsaðgerðunum sem nú standa yfir hjá yfir 2.000 félagsmönnum VR og Eflingar.

„Það fer svolítið púður í það í dag,“ segir Ragnar.

Ábendingar hafa borist um brot

Einhverjar ábendingar hafa borist um hugsanleg verkfallsbrot í dag að sögn Ragnars Þór, en VR er með „bæði starfsmenn og sjálfboðaliða sem fara á milli þeirra fyrirtækja og hótela sem um ræðir og taka púlsinn og taka stöðuna.“

Verkfallsverðir Eflingar eru líka á ferðinni og félögin tvö skiptast á upplýsingum þegar svo ber undir, en langt er síðan VR fór síðast í verkfall.

„VR hefur ekki farið í verkföll í 31 ár þannig að við erum svona aðeins að dusta rykið af því, en þetta gengur bara vel. Það hefur ekkert komið upp á – og þá er ég að tala um eitthvað sem gæti flokkast undir átök, sem við viljum að sjálfsögðu forðast,“ segir Ragnar Þór.

Þannig að þið viljið engar ryskingar?

„Nei ég held að það vilji nú enginn, það eru allir sem vilja forðast það. Ég held að þetta fari bara vel fram og að þetta sé ágætisundirbúningur fyrir það sem koma skal ef að ekki næst að semja.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert