Leggja til orkupakka með fyrirvara

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að leggja fyrir Alþingi tillögu um innleiðingu …
Ríkisstjórnin hefur samþykkt að leggja fyrir Alþingi tillögu um innleiðingu orkupakkans. Tillögunni fylgir fyrirvari um aðkomu Alþingis að lagningu sæstrengs. mbl.is/Golli

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að leggja fyrir Alþingi þriðja orkupakka Evrópusambandsins. Tillagan inniheldur fyrirvara um að sá hluti er snýr að flutningi raforku yfir landamæri komi ekki til framkvæmda nema með aðkomu Alþingis á nýjan leik, að því er segir á vef stjórnarráðsins.

Fram kemur að „þær reglur sem eiga við um flutning raforku yfir landamæri eru innleiddar með þeim lagalega fyrirvara að þær komi ekki til framkvæmda nema að Alþingi heimili lagningu raforkustrengs. Þá þarf jafnframt að taka á nýjan leik afstöðu til þess hvort reglurnar standist stjórnarskrá.“

Álit íslenskra stjórnvalda og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er að „stór hluti ákvæða [orkupakkans] gilda ekki eða hafi neina raunhæfa þýðingu fyrir Ísland á meðan enginn raforkusæstrengur er til staðar á innri raforkumarkað ESB.“

Þá er áréttað að ákvörðunarvald um lagningu sæstrengs milli Íslands og Evrópusambandsins liggi alfarið hjá íslenskum stjórnvöldum.

Í samstarfi við sérfræðinga

Utanríkisráðuneytið og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið hafa unnið að undirbúningi málsins. Hefur utanríkisráðuneytið sérstaklega unnið með hliðsjón af þeim athugasemdum sem hafa verið gerðar vegna hugsanlegrar aðkomu Orkustofnunar Evrópu (ACER) að málefnum Íslands og hvort slíkt samræmist stjórnarskrá.

„Til að fá úr þessu skorið leitaði utanríkisráðherra til fjögurra sérfræðinga: Stefáns Más Stefánssonar, prófessors við lagadeild Háskóla Íslands, og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst lögfræðings; Skúla Magnússonar, héraðsdómara og dósents við lagadeild Háskóla Íslands, og Davíðs Þórs Björgvinssonar, dómara við Landsrétt,“ segir á vef stjórnarráðsins.

„Ég hef tekið gagnrýni sem fram hefur komið vegna þriðja orkupakkans mjög alvarlega og því leitað ráðgjafar hjá virtustu sérfræðingum okkar á þessu sviði. Ég tel hafið yfir allan vafa að með þeirri lausn sem ég legg til á grundvelli þessarar ráðgjafar felst enginn stjórnskipunarvandi í upptöku og innleiðingu þriðja orkupakkans í íslenskan rétt,“ er haft eftir Guðlaug Þór Þórðarson, utanríkisráðherra.

Vandinn settur til hliðar

Með þeirri leið sem stjórnvöld hafa valið er stjórnskipunarvandinn sem felst í innleiðingu þriðja orkupakkans „settur til hliðar að sinni og reglugerðin innleidd á þeim forsendum að þau ákvæði hennar sem fjalla um flutning raforku yfir landamæri eigi ekki við hér á landi og hafi því ekki raunhæfa þýðingu. Það þýðir í raun að gildistaka þeirra er háð tilteknum frestsskilyrðum,“ segir Stefán Már Stefánsson, prófessor.

Jafnframt segir hann að „grunnforsenda þessarar lausnar er sú að þriðji orkupakkinn leggi ekki skyldur á Ísland til að koma á fót grunnvirkjum yfir landamæri heldur sé ákvörðun um það alfarið á forræði Íslands.“

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is