Lokað vegna óveðurs

mbl.is/Kristján Kristjánsson

Fjarðarheiði er lokuð vegna óveðurs og hið sama gildir um Hófaskarð, Mývatns- og Möðrudalsöræfi og Vopnafjarðarheiði. Appelsínugular og gular viðvaranir eru í gildi víða um land.

Öxnadalsheiði er þungfær og þar er mjög slæmt ferðaveður. Hálka eða hálkublettir eru á flestum leiðum á Norðurlandi og víða éljagangur og snjókoma.

Á Vesturlandi er víða snjór og hálka á vegum og þæfingsfærð á Vatnaleið. Nokkuð hvasst og víða skafrenningur og él, að því er fram kemur á Twitter-síðu Vegagerðarinnar. 

Á Vestfjörðum eru fjallvegir víða þungfærir eða þar þæfingsfærð. Starfsmenn Vegagerðarinnar eru að hreinsa vegi en ófært er í Árneshrepp. Hálka er á vegum í nágrenni Ísafjarðar. 

Greiðfært er á Reykjanesbraut og á höfuðborgarsvæðinu en annars á Suðvesturlandi er víðast hálka eða snjóþekja á vegum og skafrenningur á fjallvegum. Hvasst er á Kjalarnesi.

Þungfært er á Reynisfjalli en þar er stórhríð. Annars er snjóþekja á vegum á Suðurlandi og víða blint vegna snjókomu og skafrennings. Á Suðausturlandi er snjór á vegum og víða éljagangur. Stórhríð er í Öræfasveit.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert