Reyna að upplýsa gesti um stöðuna

Ingibjörg Ólafsdóttir hótelstýra Hótel Sögu. Hótel Saga hætti á ákveðnum …
Ingibjörg Ólafsdóttir hótelstýra Hótel Sögu. Hótel Saga hætti á ákveðnum tímapunkti að taka við bókunum vegna verkfallsins í dag og eru öll herbergi því ekki fullnýtt. mbl.is/​Hari

Ingibjörg Ólafsdóttir, hótelstjóri á Hótel Sögu, segir áskorun fyrir það starfsfólk hótelsins sem í dag sinnir innritun gesta og þrifum að komast yfir verkefni dagsins, en sólarhringsverkfall Eflingar og VR hófst á miðnætti.

„Þetta mjakast í rólegheitum,“ segir hún. „Við vorum búin að segja gestum okkar að það yrðu tafir á þjónustu og biðja þá að sýna okkur biðlund og hingað til alla vegna hefur fólk sýnt okkur skilning.“ Starfsfólk hafi reynt að upplýsa gesti um stöðuna og að um sé að ræða stéttarfélagsaðgerðir, ekki eingöngu aðgerðir starfsfólks Hótel Sögu. „Að mestu leyti hefur fólk bara verið nokkuð jákvætt,“ bætir hún við.

Verk­fallsaðgerðirn­ar að þessu sinni taka til ríf­lega tvö þúsund fé­laga í stétt­ar­fé­lög­un­um sem starfa hjá hóp­bif­reiðafyr­ir­tækj­um og á 40 hót­el­um, þar sem þeir sinn­a þrif­um á her­bergj­um, starfa á veit­inga­stöðum hót­el­anna og eru í gesta­mót­töku svo fátt eitt sé nefnt.  

Hótel Saga hætti á ákveðnum tímapunkti að taka við bókunum fyrir daginn í dag og eru öll herbergi því ekki fullnýtt. „Það eru 40 herbergi sem eru óseld í nótt,“ segir Ingibjörg. Vissulega sé ekki gott að verða fyrir tekjutapi, en það starfsfólk sem má vinna hefði ekki geta þrifið fleiri herbergi. „Þess vegna verðum við líka að horfa á þetta þannig.“

Kröfuspjöld gerð klár hjá Eflingu í gærkvöldi.
Kröfuspjöld gerð klár hjá Eflingu í gærkvöldi. mbl.is/Árni Sæberg

Spurð hversu margir séu við störf á Hótel Sögu í dag, segir hún það misjafnt. „Við erum til að mynda með marga starfsmenn sem eru í Matvís og þeir sinna sínum störfum á veitingastaðnum,“ segir Ingibjörg og kveður eingöngu faglært starfsfólk og nema starfa þar. Gestir Hótel Sögu geti því fengið sína næringu. „Önnur verkefni gangi hins vegar hægt. „Fólk þarf að bíða eftir herbergjum sínum og við tökum ekki til hjá neinum gestum sem þegar voru komnir.“ Eingöngu séu þrifin herbergi fyrir þá sem þarf að innrita.

Kúabændur buðu fram aðstoð

Ingibjörg segir þó ekki allt neikvætt að frétta og nefnir þar nágranna hótelsins í Bændahöllinni. „Við erum með dásamlegan hóp hér í húsi, sem er Landssamband kúabænda. Þeir eru eigendur í húsinu og hafa sýnt sig boðna og búna að aðstoða okkur og eru bara alveg yndislegir.“ Það boð hafi þó ekki verið þegið.

Nokkuð var um að hótel byðu gestum ýmsa hvata fyrir að tékka sig út snemma fyrir verkfall Eflingar 8. mars. Ingibjörg segir ekki hægt að gera neitt slíkt að þessu sinni. „Þá var þetta svolítið öðruvísi af því að þá vorum við með herbergisþernurnar til klukkan 10 um morguninn, af því að verkfallið hófst ekki fyrr en þá. Núna eigum hins vegar fullt í fangi með þessi herbergi sem eru að fara,“ útskýrir hún og kveðst eiga von á að á Hótel Sögu verði unnið við þrif fram eftir degi.

Verkfallinu lýkur á miðnætti og spurð hvort aukamannskapur verði kallaður út þá kveður Ingibjörg gert ráð fyrir fleira fólki í þrif á morgun en venjulega. „Af því að við erum að skilja eftir og þegar það er ekki tekið til, þá er þetta aðeins meira mál. Þess vegna erum við með aukavakt á morgun, því þá þarf að taka sérstaklega vel til hjá gestunum,“ segir Ingibjörg og kveður þetta einnig gert til að létta álagi á það starfsfólk sem þá sé að ljúka erfiðum sólarhring.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert