Segir fyrirtækin beita ýmsum brögðum

Starfsfólk Eflingar tók sér stöðu framan við Hús atvinnulífsins í …
Starfsfólk Eflingar tók sér stöðu framan við Hús atvinnulífsins í Borgartúni sem hluta af verkfallsaðgerðum sínum í morgun. mbl.is/Eggert

„Við höfum því miður orðið vör við, eins og fram hefur komið, að verið er að gera út menn sem eru að grafa undan framkvæmd verkfallsins í hópbifreiðafyrirtækjum,“ segir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, í samtali við mbl.is.

„Við fylgjumst bara mjög náið með því og okkar verkfallsverðir eru að standa vaktina á þessum helstu hópbifreiðastöðvum og taka niður allar upplýsingar og fylgjast með.“

Sól­ar­hrings­verk­fall Efl­ing­ar og VR hófst á miðnætti í nótt og taka verk­fallsaðgerðirnar að þessu sinni taka til ríf­lega tvö þúsund fé­laga í stéttarfélögunum sem starfa á 40 hót­el­um og hjá hóp­bif­reiðafyr­ir­tækj­um. 

Spurður hvort menn séu að grípa í þessi störf sem ekki eigi að vera að gera það samkvæmt skilningi Eflingar á lögunum, segir Viðar einnig vera um að ræða bílstjóra sem ekki séu félagsmenn í Eflingu. „Maður spyr sig hvort að þeir menn sem eru að ganga í störf annarra í dag, hvort að þeir ætli þá að afþakka þær kjarabætur sem við náum með þessum verkfallsaðgerðum,“ segir Viðar.

Kröfuspjöld gerð klár hjá Eflingu í gærkvöldi.
Kröfuspjöld gerð klár hjá Eflingu í gærkvöldi. mbl.is/Árni Sæberg

Hann segir verkfallsverði ekki reyna að stöðva þá. „Við höfum ekki heimild til að stöðva neitt. Við erum fyrst og fremst eftirlit og ítrekum það sem við höfum sagt, að við höfðum til samstöðu og sómakenndar þeirra sem starfa í geiranum.“

Segir atvinnuveitendur beita starfsfólk þrýstingi 

Spurður hvort meint brot tengist eingöngu hópbifreiðafyrirtækjum, segir hann: „Við erum að sjá alls konar aðgerðir bæði á hótelum og hjá hópbifreiðafyrirtækjum.“

Ekki sé þó endilega hægt að fullyrða að alltaf sé um brot að ræða. „Við sjáum líka að það er verið að láta reyna á og við sjáum að atvinnuveitendur eru að beita starfsfólk þrýstingi.“ Eins séu fyrirtækin að beita ýmsum brögðum. „Það er verið að finna ný starfsheiti á starfsfólk og annað slíkt,“ segir Viðar. „Við erum búin að sjá allar útgáfur af þessu. Það breytir því þó ekki að aðgerðirnar sem slíkar eru að ná tilætluðum árangri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert