Skilti leyfð á afmörkuðu svæði

Ótal skilti eru á Laugaveginum.
Ótal skilti eru á Laugaveginum. mbl.is/Eggert

Skilti og útstillingar fyrirtækja á Laugavegi mega vera á afmörkuðum stöðum. Annað hvort við framhlið byggingar eða á svokölluðu millisvæði en aldrei á göngusvæði. Reglur um afnot af borgarlandinu vegna skilta og útstillinga voru samþykktar í febrúar 2017.  

Skilti eða útstillingar mega vera á millisvæði ef ekki er hægt að nýta svæðið við framhlið byggingar og skulu eftir því sem hægt er vera í beinni línu, meðfram viðkomandi húsi. Þetta kemur fram í reglunum. Millisvæði liggur milli öryggissvæðis og göngusvæðis og er misbreitt eftir aðstæðum. Það er notað fyrir götugögn s.s. lýsingu, bekki og gróður. 

Afnotadeild Reykjavíkurborgar kannar reglulega hvort reglunum sé framfylgt, segir Bjarni Brynjólfsson upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar, spurður út í notkun skilta á Laugaveginum. Greint var frá því á mbl.is að erfitt hefði reynst fyrir blindan mann að ganga Laugaveginn vegna þessara hindrana.  

Alltaf boðið að taka niður ábendingar

Þegar hann óskaði eftir svörum hjá Reykjavíkurborg um skiltin fékk hann þau svör að hann gæti verið í sambandi í gegnum tölvupóst.   

„Ef viðkomandi hefur verið bent á að skrifa tölvupóst þá eru það mannleg mistök. Þegar fólk hringir er alltaf boðið upp á að taka niður ábendingar og vísa fólki ekki bara á vef. Þetta er verklagið. Það er fullt af fólki sem hefur samband og hefur ekki aðgang að tölvu,“ segir Bjarni og ítrekar að þjónustuverið sé til þess að þjónusta fólk

Hann bendir á að eftir af mbl.is hafði samband hafi þjónustan verið prófuð. Óskaði einstaklingur sem ekki gat nýtt sér tölvu til verksins eftir að koma með ábendingu. Starfsmaður í þjónustuveri hafi boðist til að taka niður ábendinguna og koma henni á framfæri.   

Millisvæðið er við hlið göngusvæðis.
Millisvæðið er við hlið göngusvæðis. skjáskot/Reykjavíkurborg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert