Skýr skilaboð um að eitthvað sé í gangi

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, með verkfallsvörðum á einu af …
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, með verkfallsvörðum á einu af hótelum borgarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

„Því miður hefur verið töluvert um verkfallsbrot,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, um sólarhringsverkfall Eflingar og VR, þá sé nokkuð um að verkfallsvörðum sé ekki hleypt inn. Hún segir starfsfólk þrifafyrirtækja áhugasamt um að fá að einnig að beita verkfallsvopninu.

Sólarhringsverkfall Eflingar og VR hófst á miðnætti og taka verk­fallsaðgerðirn­ar að þessu sinni til ríf­lega tvö þúsund fé­laga í stétt­ar­fé­lög­un­um sem starfa hjá hóp­bif­reiðafyr­ir­tækj­um og á 40 hót­el­um, þar sem þeir sinn­a þrif­um á her­bergj­um, starfa á veit­inga­stöðum hót­el­anna og eru í gesta­mót­töku svo fátt eitt sé nefnt.  

Meirihluti þeirra sem nú eru í verkfalli eru félagsmenn Eflingar og var félagið í morgun með kröfustöðu víða um bæinn með félagsmönnum. Sólveig Anna, sem var með hóp fyrir utan Hótel Natura þegar mbl.is náði samband við hana, segir kröfustöðuna hafa verið vel sótta.

Ákveðnir hópar hafa einnig séð um að sinna verkfallsvörslu og svo hefst samstöðufundur hópferðalbílstjóra í Vinabæ kl. 13.30. Þar verður jafnframt tekið við umsóknum bílstjóra fyrir greiðslu úr vinnudeilusjóði, en starfsmönnum hótela gafst kostur á að leggja fram sínar umsóknir í kröfustöðunni.

Verkfallsverðir ræða við starfsfólk á einu af hótelum borgarinnar.
Verkfallsverðir ræða við starfsfólk á einu af hótelum borgarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

Orðið vitni að töluverðum brotum

Sólveig Anna sagðist hafa verið að ræða við tvo fulltrúa Eflingar sem voru í verkfallsvörslu með öðrum hópi. „Þau sögðu að þau hefðu orðið vör við og vitni að töluverðum brotum.“ Allt sé þetta skráð niður og svo verði farið yfir það. „Síðan er það náttúrulega þannig að á sumum stöðum hefur okkur verið meinað að fara inn á hæðirnar, sem við upplifum sem skýr skilaboð um að eitthvað sé í gangi sem á ekki að vera það.“

Efling vakti athygli á því á Facebook-síðu sinni að hótelstjóri Hótel Nordica hafi vísað félagsmönnum út af lóð hótelsins í morgun er þeir voru þar með kröfustöðu. Sólveig Anna segist hafa orðið vitni að því nú áðan að hótelstjórinn vísaði öðrum hópi Eflingarstarfsmanna af lóðinni. „Þannig að hann er þá alla vega búinn að gera það tvisvar.“

Hún kveðst ekki vita til þess að slíkt hafi verið gert á fleiri stöðum. „Hins vegar hefur það gerst að verkfallsvörslunni hafi ekki verið hleypt til að sinna starfi sínu.“

Starfsfólk Eflingar tók sér stöðu framan við Hús atvinnulífsins í …
Starfsfólk Eflingar tók sér stöðu framan við Hús atvinnulífsins í Borgartúni sem hluta af verkfallsaðgerðum sínum í morgun. mbl.is/Eggert

Starfsmenn þrifafyrirtækja áhugasamir um verkfallsvopnið

Sólarhringsverkallið nú veldur meiri röskun en verkfall Eflingar 8. mars og segist Sólveig Anna vera bjartsýn á að það skili tilætluðum árangri. Ekki hafi þó verið boðað til neins fundar í kjaradeilunni í dag. 

„Ástæðan fyrir að félagsmenn Eflingar samþykktu með yfirgnæfandi meirihluta að fara í verkfall er náttúrulega sú að fólk nær ekki að láta enda ná saman með launum sínum og svo vegna þess að fólk skilur máttinn sem felst í því að beita verkfallsvopninu,“ segir hún. Efling væri ekki að fara í þessar aðgerðir nema vegna þess að þau trúa því að aðgerðirnar skili árangri.

Sólveig Anna lét þau orð falla í verkfalli félagsmanna  8. mars sl. að félagsmenn stéttarfélagsins væru að gera sig sýnilega. Hún segist upplifa svipaðan anda nú. „Ég myndi segja að sá baráttuvilji sem öllum varð ljós 8. mars, að hann er mjög raunverulegur.“

Fleiri félagsmenn Eflingar, en þeir sem boðað hefur verið verkfall hjá, hafi líka sýnt áhuga á að grípa til aðgerða. „Við vorum að tala við konu sem starfar við þrif hjá einum af þrifafyrirtækjum landsins. Þar vinnur fólk erfið störf og fær greidd svívirðilega lág laun fyrir. Hún lýsti því eindregið yfir í samtali við okkur að hún og hennar samstarfskonur vildu fá að nýta verkfallsvopnið til að knýja sína vinnuveitendur til að greiða eðlileg laun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert