Þarf að greiða Guðmundi 1,2 milljónir

Atli Már Gylfason þarf að greiða Guðmundi 1,2 milljónir í …
Atli Már Gylfason þarf að greiða Guðmundi 1,2 milljónir í miskabætur. mbl.is/​Hari

Landsréttur hefur snúið við dómi Héraðsdóms Reykjaness og dæmt blaðamanninn Atla Má Gylfason fyrir meiðyrði í garð Guðmundar Spartakusar Ómarssonar og til að greiða honum 1,2 milljónir króna í miskabætur.

Málið snýst um umfjöllun Atla Más um Friðrik Kristjáns­son sem hvarf spor­laust í Suður-Am­er­íku árið 2013. Í ít­ar­legri um­fjöll­un Atla Más um málið kaf­aði hann ofan í fíkni­efna­heim­inn á landa­mær­um Bras­il­íu og Parag­væ og bendl­aði Guðmund Spar­tak­us við hvarf Friðriks.

Guðmundur Spartakus Ómarsson.
Guðmundur Spartakus Ómarsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðmundur höfðaði mál gegn Atla Má, sem er fyrrverandi blaðamaður Stundarinnar, vegna 30 ummæla sem birt voru í Stundinni og á vefmiðli blaðsins.

Guðmundur krafðist þess að ummælin yrðu dæmt ómerkt og að honum yrðu dæmdar miskabætur.

Atli Már var í héraðsdómi sýknaður af kröfum Guðmundar með vísan til þess að Atli Már hefði með umfjöllun sinni ekki vegið svo að æru Guðmundur að farið hefði út fyrir mörk leyfilegrar tjáningar.

Í dómi Landsréttar kemur fram að með hluta umfjöllunar sinnar hefði Atli Már borið Guðmund sökum um alvarlegan og svívirðilegan glæp sem varði að lögum ævilöngu fangelsi. Lægi ekkert fyrir um að Guðmundur hefði verið kærður fyrir hið ætlaða brot, hvað þá að ákæra hefði verið gefin út og dómur fallið.

Atli Már Gylfason er til hægri á myndinni.
Atli Már Gylfason er til hægri á myndinni. mbl.is/​Hari

Engin gögn eða upplýsingar í málinu styddu fullyrðingar Atla Más, heldur væri þar eingöngu vísað til nafnlauss heimildarmanns. Þyrfti Guðmundur ekki að þola slíkar órökstuddar ásakanir og voru ummælin því ómerkt með vísan til 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga.

Á hinn bóginn hafnaði Landsréttur ómerkingu hluta ummælanna með vísan til þess að þau fælu í sér endursögn ummæla sem fram hefðu komið í öðrum fjölmiðlum. Þá hefði Atli Már með tilteknum hluta ummæla sinna haft nægt tilefni til að setja fram þann gildisdóm sem hefði falist í tilgreindri fullyrðingu.

Fallist var á kröfu Guðmundar um birtingu forsendna og dómsorðs dómsins í tímaritinu Stundinni og á vefmiðli tímaritsins.

mbl.is