Verkfallsvarsla verður efld til muna

Verkfallsverðir á ferðinni.
Verkfallsverðir á ferðinni. mbl.is/Árni Sæberg

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir það „svívirðilegt“ að fólk hafi sýnt einbeittan brotavilja þegar kemur að verkfallsbrotum. Hún vill efla verkfallsvörslu til muna í næstu viku þegar næstu tvö verkföll eru fyrirhuguð.

„Eins og allir hljóta að vera búnir að sjá eftir daginn í dag hefur því miður borið töluvert á beinum verkfallsbrotum. Þau hafa verið mjög mikið í hópferðabransanum en því miður líka á hótelunum,“ segir Sólveig Anna, spurð hvernig verkföllin hafi gengið í dag.

Hún segir að ábendingar hafi borist um verkfallsbrot frá verkfallsvörðum Eflingar og starfsfólki stéttarfélagsins. „Mér finnst svívirðilegt að fólk skuli sýna svona einbeittan brotavilja.“ Bætir hún við að öll slík brot séu skráð niður.

Sólveig Anna Jónsdóttir á ferðinni í dag.
Sólveig Anna Jónsdóttir á ferðinni í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Meinað að fara upp

Hún nefnir að víða hafi verkfallsvörðum verið mætt af öryggisvörðum hótela. „Það er augljóst í hvaða tilgangi við erum að koma. Við erum að sinna fullkomlega eðlilegu hlutverki okkar en þurftum að svara spurningum frá öryggisvörðum á hótelunum, sem gefur okkur ekki sérstaklega góða tilfinningu fyrir ástandinu,“ segir hún og nefnir að á sumum hótelum hafi verkfallsvörðum verið meinað að fara upp á hæðirnar til að athuga málin. „Við getum ekki hugleitt annað en hvað er verið að fela.“

Sólveig Anna heldur áfram: „Reynslan í dag kennir okkur að í komandi viku þar sem tveir dagar fara í verkföll þurfum við að bæta mjög vel í verkfallsvörslu vegna þess að því miður virðist vera mjög einbeittur brotavilji mjög víða.“ Verkföllin eru fyrirhuguð á fimmtudag og föstudag. 

Hún telur jafnframt að auðvelt verði að fá fleiri til að sinna verkfallsvörslu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert