„Allt annað hljóð í mönnum“

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segist ver bjartsýnn hvað framhald …
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segist ver bjartsýnn hvað framhald kjaraviðræðna varðar. mbl.is/Árni Sæberg

„Ef það kemur til þess að ástandið haldi áfram, þá verða verkföll fimmtudaginn næsta og þá hefur þetta verið upphitun fyrir það sem koma skal,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í samtali við mbl.is um verkfallsaðgerðir félagsins sem lauk á miðnætti. 

„Að sjálfsögðu vonast ég til þess að við förum að ná saman við okkar viðsemjendur, ég vona það og trúi því að menn hleypi þessu ekki í frekari átök,“ bætir hann við.

Ragnar Þór segir að nú þegar fyrstu verkfallsaðgerðir séu liðnar verði farið yfir framkvæmd verkfallsins. „Við erum að bera saman bækur okkar og sjá hvað hefði mátt fara betur.“

Hrósar hótelstjórum

Ragnar Þór segist hins vegar vilja taka sérstaklega fram að honum þykir „almennt yfir, bæði stjórnendur og eigendur hótela og stjórnendur fyrirtækja, hafa tekið þessu af fagmennsku. Sömuleiðis eins og verkfallsverðir Eflingar og VR. Það voru engin læti eða átök, hóparnir tóku tillit til hvor annars.“

Spurður hvort hafi verið eitthvað um möguleg verkfallsbrot, segir hann svo vera. „Auðvitað komu upp einhver álitamál sem þarf að láta reyna á og þar er okkar vopn bara dómstólar sem skera úr um lögmæti meintra brota. Tilfelli þar sem starfsmenn fóru í þau störf sem ekki hafi verið heimilt samkvæmt lögum.“

Formaðurinn segir möguleg verkfallsbrot hafi þó ekki verið í sama mæli hjá VR og virðist hafa verið í tilfelli Eflingar. „Þetta voru einhver álitamál tengd akstri bílstjóranna og þrifum á hótelum.“

Leysanlegt verkefni

Unnið verður alla helgina innan félagsins og er næsti fundur hjá ríkissáttasemjara boðaður á mánudagsmorgun, að sögn formannsins.

Hann segist aðspurður ekki getað tjáð sig um innihald viðræðna vegna fjölmiðlabanns sem sett hefur verið á deiluaðila, en tekur þó fram að hann telji vera „allt annað hljóð í mönnum og menn eru að nálgast þetta á lausnarmiðaðri hátt. Þetta er leysanlegt verkefni.“

Um framhald kjaraviðræðna segir Ragnar Þór: „Verður maður ekki bara að vera bjartsýnn á að þetta takist?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert