Bótadómur ógiltur vegna meðdómenda

Landsréttur í Kópavogi.
Landsréttur í Kópavogi. mbl.is/Hanna

Landsréttur hefur ómerkt dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem tryggingafélaginu Verði var gert að greiða manni rúmar 66 milljónir króna í skaðabætur.

Maðurinn slasaðist alvarlega er hann ók bifhjóli aftan á pallbifreið sem var ekið í sömu aksturstefnu, eða í Mosfellsdal vestur Þingvallaveg, árið 2013. Hann krafðist þess að Vörður greiddi honum skaðabætur að fullu. Í héraðsdómi, sem var skipaður einum embættisdómara og tveimur sérfróðum meðdómendum, var fallist á kröfu hans.

Í dómi Landsréttar var rakið að lögum um meðferð einkamála hefði verið breytt þannig að þegar sérþekkingar væri þörf sæti einn sérfróður meðdómandi í héraðsdómi ásamt tveimur embættisdómurum. Samkvæmt ákvæðinu væri dómara þó heimilt að kveðja til tvo meðdómsmenn ef hann teldi þurfa sérkunnáttu í dómi á fleiri en einu sviði.

Í málinu hefðu tveir sérfróðir meðdómsmenn tekið sæti í dómi við meðferð málsins í héraði eftir gildistöku laga nr. 49/2016 og sú staðreynd sem deilt hefði verið um í málinu, og héraðsdómur taldi þörf á sérkunnáttu um, hefði varðað mat á ökuhraða bifhjólsins er maðurinn ók því á pallbifreiðina.

Í dómi Landsréttar kom fram að þótt annar hinna sérfróðu meðdómsmanna hefði verið byggingaverkfræðingur og hinn prófessor í eðlisfræði hefði sérkunnátta þeirra í málinu í reynd lotið að sama matsatriði. Skipan héraðsdóms hefði því verið í andstöðu við 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 og yrði af þeim sökum ekki hjá því komist að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert