Dyraverðir áttu í vök að verjast

Lögreglumaður að störfum.
Lögreglumaður að störfum. mbl.is/Eggert

Dyraverðir á skemmtistað í miðborginni óskuðu eftir aðstoð lögreglunnar um hálffjögurleytið í nótt, en þá voru þeir með einstakling í tökum. Hann er grunaður um að hafa ráðist á dyraverði og reynt að slá og sparka í lögreglumenn.

Aðilinn, sem var ofurölvi, var vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins, að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 

Áður hafði annar ölvaður einstaklingur verið til vandræða fyrir utan skemmtistað í Breiðholtinu, laust eftir miðnætti. Hann hafði m.a. reynt að kýla dyravörð. Hann var handtekinn sökum ástands og vistaður í fangaklefa.

Neituðu að yfirgefa veitingastað

Upp úr klukkan hálftvö í nótt var óskað eftir aðstoð lögreglu á veitingastað í miðborginni en gestir staðarins neituðu að yfirgefa hann eftir lokun. Lögreglan aðstoðaði starfsmenn við að vísa gestunum út.

Tilkynnt var um þjófnað í verslun í hverfi 108 um hálfsexleytið í gær. Um var að ræða ólögráða einstakling og var haft samband við foreldra og skýrsla tekin af aðilum á vettvangi.

mbl.is/Eggert

Skömmu fyrir miðnætti var tilkynnt um einstakling vera að skemma bifreiðar í hverfi 105. Hann var handtekinn grunaður um skemmdirnar.

Um hálfeittleytið í nótt var óskað eftir aðstoð lögreglu að veitingastað í hverfi 105 vegna einstaklins sem lét illa. Hann farinn þegar lögregla kom á vettvang.

Öskraði í anddyri fjölbýlishúss

Íbúar í fjölbýlishúsi í Kópavogi óskuðu um hálfsjöleytið í gærkvöldi eftir aðstoð við að fjarlægja einstakling úr anddyri hússins en hann stóð öskrandi í anddyrinu. Hann reyndist farinn þegar lögregla kom á vettvang.

Tilkynnt var um líkamsárás í Kópavogi upp úr klukkan ellefu í gærkvöldi. Árásarþoli leitaði á slysadeild en ekki er vitað um meiðsli. Ekki er vitað hver árásaraðili er á þessu stigi málsins.

Töluvert var einnig um að ökumenn væru stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna eða áfengis.

Í gærkvöldi var jafnframt tilkynnt um fimm umferðaróhöpp á Vesturlandsvegi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert