Óvissuþættir í fjármálaáætlun

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2020 til 2024 gerir ráð fyrir að hægi á hagvexti, en að hann haldist um 2,5% á tímabilinu. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir í samtali við mbl.is að hann geri sér grein fyrir því að forsendur áætlunarinnar geti breyst, en hún sé byggð á forsendum þess tíma sem hún er lögð fram á.

„Ef það verða miklar breytingar í hagkerfinu verðum við að aðlaga okkur að því, það er alveg klárt,“ bætir Bjarni við.

Lagt er upp með að Alþingi taki áætlunina til umfjöllunar á þriðjudag.

Spurður hvort Alþingi sé fært að taka afstöðu til áætlunar þegar liggja fyrir óvissuþættir eins og í tilfelli flugsamgangna svarar hann: „Ég held að engar forsendur hafi breyst enn,“ og bendir á að miðað sé við fyrirliggjandi upplýsingar. Jafnframt sé sérstaklega bent á ýmsa óvissuþætti.

„Þetta er einn óvissuþáttanna. Kjarasamningar er annar og þriðji óvissuþátturinn sem við tiltökum sérstaklega er minni hagvöxtur í alþjóðahagkerfinu, sem getur haft áhrif á eftirspurn eftir íslenskum útflutningsvörum,“ segir Bjarni.

Hann bætir við að ekki sé litið svo á að loðnubrestur sé óvissuþáttur, heldur hafi hann orðið að veruleika.

Aðhaldskrafa

Í fjármálaáætluninni er gerð aðhaldskrafa til opinberra stofnanna og ráðuneyta bæði hvað varðar launakostnað og í tengslum við vörukaup upp á um fimm milljarða króna.

Bjarni telur það ekki ummerki um að ríkið muni ekki koma í veg fyrir launahækkanir opinberra starfsmanna, heldur verði að líta á það í samhengi við hugmyndir um að innleiða stafræna stjórnsýslu.

Er það sagt grundvöllur að betri nýtingu skattfjár og mun stafræn þjónusta bæta aðgengi almennings og fyrirtækja að hinu opinbera. Jafnframt er talið að hægt sé að spara allt að 4 milljarða á ári. Bjarni segir þó meiri verðmæti fólgin í aukinni ánægju með þjónustuna og skilvirkni verði meiri.

Samgöngur

„Það má segja að í þessari fjármálaáætlun séum við að stíga skref í átt að miklum breytingum á samgönguáætluninni með fjögurra milljarða innspýtingu á ári,“ svarar fjármálaráðherra spurður hvort gert sé ráð fyrir kostnaði vegna nýsamþykktrar samgönguáætlunar í fjármálaáætluninni.

Hann bendir á að um sé að ræða um 20 milljarða viðauka á tímabilinu, en til þess að fullfjármagna samgönguáætlun verði að skoða áfram útfærsluatriði eins og sérstaka gjaldtöku.

Almannatryggingar

Gert var ráð fyrir í fjárlögum 2019 að fram færi breyting á almannatryggingakerfinu sem myndi leiða af sér afnám krónu á móti krónu skerðingu í kerfinu frá 1. apríl. Öryrkjabandalagið hefur hins vegar sagt sig frá skýrslu starfshóps um breytingarnar.

„Við erum með á ári fjóra milljarða í áætluninni til þess að leiða fram kerfisbreytinguna. Nákvæm útfærsla er auðvitað í höndum félagsmálaráðherra,“ segir Bjarni og vísar til starfshóps sem unnið hefur að afnámi þessarar skerðingar.

mbl.is