Semja um stofnun nemendagarða

Guðmundur Gunnarsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, Helena Jónsdóttir skólastjóri Lýðháskólans og Runólfur …
Guðmundur Gunnarsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, Helena Jónsdóttir skólastjóri Lýðháskólans og Runólfur Ágústsson stjórnarformaður undirrita samkomulag bæjarins og skólans um stofnun Nemendagarða á Ísafirði í gær. Ljósmynd/Aðsend

Ísafjarðarbær og Lýðháskólinn á Flateyri hafa undirritað samkomulag um stofnun sjálfseignarstofnunar til reksturs nemendagarða Lýðháskólans.

Í tengslum við stofnun þeirra mun bærinn kaupa 85% hlut ríkisins í húsnæði heilsugæslu Flateyrar á 6,9 milljónir króna en Ísafjarðarbær á fyrir 15% hússins. Bærinn mun síðan selja Nemendagörðum húsið í heild sem munu nýta það sem heimavist fyrir skólann, að því er segir í fréttatilkynningu.

Stofnun nemendagarða og kaup á húsnæðinu munu gera skólanum kleift að lækka húsaleigu nemenda auk þess sem Lýðháskólinn getur fjölgað nemendum í 40 en tæplega 30 stunda nú nám við skólann.

Mikil aðsókn er að skólanum sem í vor lýkur sínu fyrsta starfsári. Starfræktar eru tvær brautir við skólann, „Hugmyndir, heimurinn og þú“ þar sem áherslan er á sköpun og hugmyndir, og „Hafið, fjöllin og þú“ með áherslu á sjálfbærni og útivist.

Samkomulag er um að Heilbrigðisstofnun Vestfjarða nýti áfram hluta jarðhæðar hússins til þjónustu við Flateyringa eins og verið hefur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert