Yfir 40 milljarðar til háskólanna

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir ríkisstjórnina stefna að frekari …
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir ríkisstjórnina stefna að frekari fjárfestingu í háskólastiginu og að það mun byggja undir verðmætasköpun. mbl.is/​Hari

Framlög ríkisins til háskólastigsins mun hækka á næstu árum og mun fara yfir 40 milljarða króna árið 2023 samkvæmt fjármálaáætlun 2020 til 2024, a því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

„Meginmarkmið stjórnvalda hvað varðar starfsemi á háskólastigi er að framsæknar og alþjóðlega samkeppnishæfar rannsóknarstofnanir og háskólar skapi þekkingu,“ segir í tilkynningunni. Þá segir að unnið sé markvisst að því markmiði með því að auka gæði náms og styrkja rannsóknarstarf.

„Við höldum áfram að auka framlög á því sviði líkt og boðað er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Öflugir háskólar byggja undir frekari verðmætasköpun í samfélaginu og auka samkeppnishæfni hagkerfisins á alþjóðavísu,“ er haft eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra.

Mynd/Fjármálaráðuneytið

Auka framlög til rannsókna

Fram kom í kynningu Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra í dag að stefnt sé að því að stuðla að verulegri aukningu framlaga til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina.

Á fjárlög þessa árs gera ráð fyrir 14,9 milljörðum króna til málaflokksins og er gert ráð fyrir að framlög ríkisins verði 19,5 milljarðar árið 2024. Sagði Bjarni nýsköpun grundvöll fyrir aukna samkeppnishæfni.

mbl.is