Árvökull og brást hratt við aðstæðum

Hendrik segir allt starfsfólk fá þjálfun í svona aðstæðum og …
Hendrik segir allt starfsfólk fá þjálfun í svona aðstæðum og að bílstjórinn hafi brugðist hárrétt við. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það sem skiptir máli er að það urðu engin slys á fólki og ekkert umhverfisslys,“ segir Hendrik Egholm, forstjóri Skeljungs, í samtali við mbl.is um flutningabíl fyrirtækisins sem lenti utan vegar á Hellisheiði í morgun.

Slysið atvikaðist þannig að fólksbíll keyrði í veg fyrir flutningabílinn, sem var með 40.000 lítra af olíu á tanki, og brást ökumaðurinn fljótt við með því að keyra utan vegar til þess að forða árekstri.

Hendrik segir allt starfsfólk fá þjálfun í svona aðstæðum og að bílstjórinn hafi brugðist hárrétt við. „Það eru skýrir verkferlar hjá okkur þegar svona kemur upp. Þeir gengu mjög vel í dag og samvinna lögreglu, slökkviliðs og viðbragðsteymis okkar var mjög góð.“

„Það sem við höfum heyrt frá viðbragðsaðilum er að bílstjórinn okkar hafi verið mjög árvökull og brugðist hratt við aðstæðum. Það er virkilega gott að heyra,“ segir Hendrik.

Næst á dagskrá sé að greina atvik á upptökum úr myndavélum í bílnum. „Við teljum okkur hafa nokkuð skýra mynd af því sem gerðist en viljum auðvitað vera 100% viss. Svo verður brugðist við í samræmi við það, en við teljum að rétt hafi verið staðið að öllu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert