Grunaður um ofbeldi gegn opinberum starfsmanni

mbl.is/Eggert

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast á næturvaktinni. Nokkrir hafa verið handteknir og vistaðir í fangageymslum lögreglu. Þar á meðal maður sem er grunaður um að hafa beitt opinberan starfsmann ofbeldi á heilbrigðisstofnun í gærkvöldi. 

Fram kemur í dagbók lögreglunnar, að á níunda tímanum í gærkvöldi hafi verið tilkynnt um mann í annarlegu ástandi á heilbrigðisstofnum í Háaleitis- og Bústaðahverfinu. Maðurinn er grunaður um ofbeldi gegn opinberum starfsmanni, eignaspjöll og fleira. Hann var því handtekinn og vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu.

Um klukkan 22:40 í gærkvöldi var ölvaður maður handtekinn í heimahúsi í Árbænum. Maðurinn var þar gestkomandi og hafði í hótunum við húsráðendur að sögn lögreglu. Hann er erlendur og var nýkominn til landsins og hafði ekki í önnur hús að fara. Hann var vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglu. 

Þá var ölvaður maður handtekinn á veitingastað í Smáralind í Kópavogi á níunda tímanum í gærkvöldi grunaður um líkamsárás og hótanir. Maðurinn var vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu.

Klukkan 21:25 voru höfð afskipti af unglingapartýi í Breiðholti. Þar var 15 ára unglingur með partý þar sem 35 unglingar voru. Að sögn lögreglu voru áfengisumbúðir sjáanlegar og enginn fullorðinn á staðnum. Unglingunum var vísað út og húsráðanda kynnt afskipti lögreglu.  Tilkynning var einnig send til barnaverndaryfirvalda.

Á fimmta tímanum í nótt var tilkynnt um líkamsárás á veitingahúsi í miðborginni. Þar hafði maður fengið sár á höfuðið en hann vildi ekki fara á slysadeild til aðhlynningar. Meintur árásarmaður var handtekinn en var svo látinn laus að lokinni upplýsingatöku.

Lögreglan hafði einnig afskipti af mörgum ökumönnum sem óku undir áhrifum áfengis og/eða vímuefna. 

Um kl. eitt í nótt var umferðardeild lögreglunnar með hraðamælingu í Ártúnsbrekku. Þar voru afskipti höfð af 5 ökumönnum, en sá sem ók hraðast mældist á allt að 129 km hraða, en þarna er 80 km hámarkshraði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert