„Okkur er öllum brugðið“

Frá æfingu hjá Landhelgisgæslunni.
Frá æfingu hjá Landhelgisgæslunni. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er eitthvað sem allir sem koma að þessum málum á Norður-Atlantshafi hafa haft áhyggjur af og Norðmenn fá þetta kannski fyrstir og ég held að okkur sé öllum brugðið sem höfum með þessa hluti að gera,“ svarar Ásgrímur L. Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar, þegar mbl.is spyr hvort ástæða sé til þess að hafa áhyggjur af sambærilegum atburði við Ísland og í tilfelli Viking Sky.

Björgunarsveitir hafa unnið að því í allan dag að flytja …
Björgunarsveitir hafa unnið að því í allan dag að flytja farþega úr skemmtiferðaskipinu Viking Sky, sem lenti í vanda við Noregsströnd í gær, í land með þyrlum. AFP

„Það er alveg ljóst að við búum ekki jafn vel og Norðmenn með þyrlur, það eru bara þrjár þyrlur hér hjá Landhelgisgæslunni,“ segir Ásgrímur.

Fimm þyrluáhafnir unnu hörðum höndum í nótt við að koma 1.300 farþegum Viking Sky frá borði við erfiðar aðstæður og var hætta á að skipið strandaði. Samkvæmt áætlun var fyrirhugað að skipið kæmi tvisvar til Íslands í sumar.

Skoða viðbragðsáætlanir

Ásgrímur segir fulla ástæðu til þess að fara yfir aðgerðaáætlanir vegna tilviksins. „Þetta verður líklega til þess að aðilar setjist niður og fari vel yfir áætlanir um það hvernig við ætlum að standa að þessu.“

Undir þau orð tekur Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, í samtali við mbl.is. „Það er til viðbragðsáætlun og við höfum tekið þátt í æfingum. Það er hins vegar alveg ljóst að þegar svona kemur upp í vondu veðri eins og í Noregi er mjög mikilvægt að menn rýni svona atvik.“

Hann telur engan vafa vera á að almannavarnanefnd skoði þetta tilvik. Gísli bendir á að flest skip sem koma hingað til lands komi að sumri, en vissulega geta komið upp alvarleg tilvik óháð veðri.

Staðsetningin gæti hafa verið verri

Ásgrímur segir að við vesturströnd Noregs séu björgunarinnviðir mjög umfangsmiklir meðal annars vegna þjónustu við olíuborpalla og hægt væri að biðja um aðstoð þyrlu sem sinnti slíkri starfsemi. „Þannig að þessu er bara ekki saman að líkja, miðað við þessa staðsetningu í Noregi og það sem við höfum hér.“

Má segja að um heppni sé að ræða að vandamál Viking Sky hafi komið upp á þessum tiltekna stað, en ekki á svæði þar sem björgunarinnviðir eru veikari, að sögn Ásgríms.

Ásgrímur L. Ásgrímsson.
Ásgrímur L. Ásgrímsson.

Þörf á fleiri varðskipum

Hér á landi hafa verið til taks fimm þyrlur þegar mest var, en nú eru þær þrjár. „Við náum aldrei meira en þremur í besta falli,“ segir Ásgrímur.

Þá segir hann Landhelgisgæsluna hafa bent á mikilvægi þess að vera með skip af sama toga og Þór „sem hugsanlega getur verið fljótt á svæðið ef það er rétt staðsett og haldið svona skipum frá landi ef vélarbilun kemur upp“.

Jafnframt sé ekki nóg að hafa eitt skip heldur fleiri, að sögn Ásgríms sem bendir á að fleiri koma að björgunaraðgerðum. Jafnvel önnur skip og bátar sem geta aðstoðað við að koma fólki frá borði, „ef það er möguleiki“.

Varðskipið Þór.
Varðskipið Þór. mbl.is/Þorsteinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert