Skiptast á að leika Matthildi

Erna, Salka Ýr og Ísabel Dís voru í viðtali við …
Erna, Salka Ýr og Ísabel Dís voru í viðtali við Barnablað Morgunblaðsins um helgina. mbl.is/Árni Sæberg

Matthildur er nýr söngleikur sem frumsýndur var í Borgarleikhúsinu um síðustu helgi. Erna Tómasdóttir, Salka Ýr Ómarsdóttir og Ísabel Dís Sheehan skiptast á að bregða sér í hlutverk Matthildar. Yfir þúsund krakkar mættu í prufur fyrir leikritið en 19 krakkar voru valdir til að taka þátt. Vinkonurnar þrjár eru allar 10 ára gamlar og ætla sér stóra hluti í leiklistinni. Barnablað Morgunblaðsins hitti þær í leikhúsinu sem er þeirra annað heimili. Hér fáum við að kynnast þeim aðeins betur.     

Hvað eruð þið gamlar?
Salka: Ég er 10 ára og er í Hofsstaðaskóla í Garðabæ.
Erna: Ég er í Barnaskólanum í Reykjavík og er 10 ára.
Ísabel: Ég er líka 10 ára og ég er í Vesturbæjarskóla.

Hvernig fenguð þið hlutverk Matthildar?
Salka: Við mættum í prufur. Mamma spurði mig hvort ég vildi ekki mæta. Mig hefur alltaf langað til að verða leikkona. Þetta var líka systur minni að þakka því mig langaði helst að hætta við þegar ég sá hvað röðin var löng.
Erna: Ég mætti líka í röðina en prufurnar fóru fram einhvern tímann í fyrra. Ég var í bíltúr þegar ég heyrði auglýsingu í útvarpinu og þá spurði ég mömmu hvort ég mætti prófa. Við lærðum eitt lag sem við sungum og fórum með smá texta.
Ísabel: Ég var að leika við vinkonur mínar og þær ætluðu að fara í prufurnar þannig að ég ákvað að kíkja líka. Svo komst ég í gegnum prufurnar og hér er ég nú. Það mættu bæði strákar og stelpur, verið var að velja í fleiri barnahlutverk á sama tíma.
Það mættu samanlagt 1.119 krakkar í prufurnar.

Er einhver boðskapur með sýningunni?
Salka: Já, þetta kennir okkur að vera dugleg að lesa og ekki beita ofbeldi.
Erna: Að láta ekkert stoppa sig og ekki taka það of mikið inn á sig ef einhver er leiðinlegur við mann.
Ísabel: Sammála.

Og sýningin er byggð á bók?
Ísabel: Já, á skáldsögu eftir Roald Dahl.
Erna: Við erum allar búnar að lesa bókina.

Hafið þið leikið eitthvað áður?
Ísabel: Ég hef verið í Sönglist.
Salka: Ég líka, en það er söng- og leiklistarskóli hér í Borgarleikhúsinu.
Erna: Ég hef ekki leikið neitt áður.

Um hvað fjallar þetta?
Salka: Litla stelpu sem er rosalega klár og elskar bækur. Hún er óvenjugáfuð og með mikið ímyndunarafl. Foreldrarnir eru hins vegar ekki jafn kátir með hæfileika hennar.
Erna: Pabbinn kallar hana strák.
Ísabel: Hún þarf að berjast gegn ranglætinu í heiminum.
Erna: Svo er hún femínisti.
Ísabel: Björgvin Frans leikur vondu skólastýruna Karítas Mínherfu sem gerir okkur lífið ansi leitt.

Er eitthvað líkt með ykkur og Matthildi?
Salka: Ég elska bækur eins og hún og svo er ég líka prakkari.
Erna: Okkur finnst báðum skemmtilegt að lesa.
Ísabel: Ég er líka mjög mikill prakkari.

Hægt er að lesa viðtalið í heild sinni í Barnablaðinu sem kom út um helgina.

 



Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert