Alþingi heldur sig frá samfélagsmiðlum

Alþingi hefur ekki auglýst á samfélagsmiðlum og hyggst ekki gera …
Alþingi hefur ekki auglýst á samfélagsmiðlum og hyggst ekki gera svo. mbl.is/Kristinn Magnússon

Engin áform eru uppi um að birta auglýsingar frá Alþingi á samfélagsmiðlum eins og Facebook, Instagram, YouTube og Twitter. Þetta er meðal þess sem kemur fram í svari forseta Alþingis við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um auglýsingar á samfélagsmiðlum.

Alþingi hefur ekki auglýst á samfélagsmiðlum og hyggst ekki gera svo, að því er fram kemur í svarinu.

Eina notkun Alþingis á samfélagsmiðlum er á Twitter-síðu þess en þar eru reglulega tilkynningar um starfsemi Alþingis og viðburði á vegum þess. „Svipað gildir um Hús Jóns Sigurðssonar í Kaupmannahöfn, en þar er efni miðlað á vef Jónshúss, Facebook, Instagram og Flickr,“ segir í svarinu.

Auglýsingakostnaður Alþingis er fyrst og fremst auglýsingar um laus störf á skrifstofu Alþingis og hefur reglan hefur verið sú að birta slíkar auglýsingar í þeim tveimur dagblöðum sem gefin eru út, Fréttablaðinu og Morgunblaðinu. Þá hafa einstaka sinnum verið birtar auglýsingar í Ríkisútvarpinu eins og í tengslum við opið hús á Alþingi 2018.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert