Auknar líkur á ofanflóðum

Draga mun smám saman úr vindi þegar kemur fram á …
Draga mun smám saman úr vindi þegar kemur fram á morgundaginn og styttir upp að mestu. Kort/Veðurstofa Íslands

Veðurstofan varar við auknum líkum á ofanflóðum á Snæfellsnesi og sunnanverðum Vestfjörðum í nótt og fyrramálið. Talsvert mikið rigndi á þessum slóðum í dag samfara leysingu í hlýindum. 

Í athugasemd veðurfræðings segir að þótt dregið hafi mikið úr úrkomu eru enn líkur á að vatnsföll ryðji sig á þessum slóðum og einnig auknar líkur á ofanflóðum. 

Veðurhorfur á landinu næsta sólarhringinn eru annars þær að búist er við suðvestanátt, 10-18 metrum á sekúndu, en 18-23 metrum á sekúndu staðbundið í vindstrengjum á Norðurlandi og austan Öræfajökuls. 

Skúrir eða jafnvel slydduél verða víða um land, en þurrt á austanverðu landinu. Þá dregur smám saman úr vindi þegar kemur fram á daginn og styttir upp að mestu. Hiti verður á bilinu 2 til 7 stig á morgun, en svalara annað kvöld.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert