Barátta óháð kapítalískum fyrirtækjum

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/Árni Sæberg

„Verkalýðsbarátta snýst um að tryggja vinnuaflinu mannsæmandi afkomu sama hvað kapítalísk fyrirtæki gera,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, við mbl.is. Fundi verkalýðsfélaga við SA var slitið fyrr en áætlað var í dag vegna óvissunnar varðandi WOW air.

Sólveig segir að vandinn við íslenskt efnahagskerfi sé hversu ótrúlega viðkvæmt það er fyrir því að eitt fyrirtæki geti leikið kerfið grátt. „Þrátt fyrir það þarf að tryggja mannsæmandi afkomu og við berjumst fyrir því. Að mínu mati standa þær kröfur óhaggaðar.“

Eftir að fundi var slitið um tvöleytið í dag var boðaður annar fundur í kjaradeilu Efl­ing­ar, VR, Verka­lýðsfé­lags Grinda­vík­ur, Land­ssam­bands ís­lenskra verzl­un­ar­manna, Verkalýðsfélags Akraness og Framsýnar við Samtök atvinnulífsins klukkan tíu í fyrramálið.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, sagði við mbl.is eftir fundinn í dag að félögin hafi lengi óskað eftir því að SA leggi fram tölur varðandi launaliðinn svo hægt sé að þoka viðræðum áfram. SA hefur sagt að þar treysti menn sér ekki til þess á meðan óvissan er uppi hjá WOW air.

„Minn skilningur eftir fund dagsins var sá að við værum að gefa þeim tíma og svigrúm til að sjá hvernig þessi dagur spilaðist, áður en þeir svöruðu okkur um launaliðinn,“ segir Sólveig.

„Mín afstaða er sú að auðvitað eiga viðræður um launalið að halda áfram, sama hvað á sér stað þarna,“ segir Sólveig og vísar til vandræða WOW air.

„Við stefnum á að gera kjarasamninga fyrir gríðarlegan fjölda af vinnandi fólki. Það er gríðarlegra mikil ábyrgð og okkur ber skylda til að axla þá ábyrgð, bæði okkur og SA, sama hvað gerist þarna.“

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagðist ekki ætla að tjá sig við fjölmiðla í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert