Öryggi flugfarþega ávallt á oddinn

Öryggi flugfarþega er ávallt í fyrsta sæti í eftirliti Samgöngustofu.
Öryggi flugfarþega er ávallt í fyrsta sæti í eftirliti Samgöngustofu. mbl.is/Eggert

Aðkoma Samgöngustofu er varðar eftirlit með fjárreiðum flugrekenda snýr að því að tryggja það að flugöryggi sé ávallt í fyrsta sæti.

Þetta segir Þórhildur Elín Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu, í samtali við mbl.is, spurð um aðkomu stofnunarinnar að fréttum um erfiða stöðu WOW Air. Samgöngustofa fari eftir sameiginlegri evrópskri reglugerð sem leiðbeini stjórnvöldum um aðkomu að eftirliti. Það sé fyrst og fremst fólgið í því að öryggisþættir á borð við viðhald flugvéla eða þjálfun áhafna sé sett á oddinn.

Sam­göngu­stofa sér um veit­ingu flugrekstr­ar­leyfa og eft­ir­lit vegna þeirra. Varðandi flugrekstrarleyfi vinnur Samgöngustofa eftir Evrópureglugerð nr. 1008/2008 þar sem segir meðal annars að fyrirtæki þurfi að upp­fylla ákveðin fjár­hags­leg skil­yrði til þess að geta fengið flugrekstr­ar­leyfi. Í 9. grein sömu reglu­gerðar er einnig fjallað um mögu­leik­ann á tíma­bund­inni ógild­ingu og aft­ur­köll­un á flugrekstr­ar­leyfi.

Sam­göngu­stofu er heim­ilt að meta hvenær sem er fjár­hags­stöðu flugrekstr­ar­leyf­is­hafa og þarf full­vissa að ríkja um hvort flugrek­andi geti staðið við raun­veru­leg­ar skuld­bind­ing­ar og aðrar skuld­bind­ing­ar sem stofnað er til á 12 mánaða tíma­bili.

Þar kem­ur þó einnig fram að Sam­göngu­stofu sé heim­ilt að veita tíma­bundið leyfi, þó ekki leng­ur en til 12 mánaða, á meðan fjár­hags­leg end­ur­skipu­lagn­ing fer fram „að því til­skildu að ör­yggi sé ekki teflt í tví­sýnu“ og að raun­hæf­ar lík­ur séu á því að „fjár­hags­leg end­ur­reisn tak­ist“ inn­an tíma­bils­ins.

Heim­ild­ir Morg­un­blaðsins herma að tap WOW air á síðasta ári hafi numið 22 millj­örðum króna. Þá er staða fé­lags­ins afar veik um þess­ar mund­ir. Þannig mun lausa­fjárstaða þess vera nei­kvæð sem nem­ur rúm­um 11 millj­ón­um doll­ara, jafn­v­irði 1,4 millj­arða króna. Þá er eigið fé fé­lags­ins nei­kvætt sem nem­ur rúm­um 111 millj­ón­um doll­ara, jafn­v­irði ríf­lega 13 millj­arða króna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert