Hefja rannsókn á Viking Sky

Talsverður viðbúnaður var þegar Viking Sky eftir mikla erfiðleika kom …
Talsverður viðbúnaður var þegar Viking Sky eftir mikla erfiðleika kom að bryggju í Molde í gær. Lögreglan segist rannsaka málið. AFP

Lögreglan í Raumsdal í Noregi hefur ákveðið að hefja rannsókn vegna hættuástands sem skapaðist þegar skemmtiferðaskipið Viking Sky varð vélvana á laugardag. Hins vegar er ekki grunur um glæpsamlegt athæfi í tengslum við tilvikið, að því er fram kemur í umfjöllun norska ríkisútvarpsins NRK.

Einnig hefur verið ákveðið að hefja rannsókn á vélarbilun flutningaskipsins Hagland Captain við Hustadvika sem átti sér stað á svipuðum tíma um helgina.

Lögreglan mun leita samstarfs við fleiri norskar stofnanir og eftirlitsaðila sem hafa með umrædd tilvik að gera, að sögn Yngve Skovly lögreglufulltrúa.

Níu enn á sjúkrahúsi

Um 300 farþegar sem voru um borð í Viking Sky eru lagðir af stað með flugi frá bænum Molde í Noregi til síns heima. Búist er við því að fleiri hundruð farþegar til viðbótar muni fara með flugi frá Molde í dag.

Níu farþegar eru enn á sjúkrahúsi og er einn enn þá illa haldinn. Alls hafa 28 hlotið meðferð á sjúkrahúsunum í Molde og Kristiansund.

Rúmlega fjögur hundruð af um 1.300 farþegum voru fluttir af skipinu með fimm þyrlum í kjölfar þess að Viking Sky varð vélvana og stefndi í að skipið strandaði, aðeins munaði 100 metrum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert