Sér um að breyta flugskýlinu

Bandarísk P-8 Poseidon-kafbátaleitarvél.
Bandarísk P-8 Poseidon-kafbátaleitarvél. Ljósmynd/Bandaríski sjóherinn

Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur samið við bandaríska verktakafyrirtækið Rizzani de Eccher Inc., sem er með höfuðstöðvar í borginni Miami í Flórída-ríki, um að sjá um breytingar á flugskýli á varnarsvæðinu sem áður hýsti P-3 Orion-kafbátaleitarvélar bandaríska sjóhersins. Frá þessu er greint á fréttavefnum Suðurnes.

Breytingarnar miða að því að flugskýlið geti hýst P-8A Poseidon-kafbátaleitarvélar sem til stendur að verði staðsettar hér á landi. Verkefnið felst einnig í hönnun og byggingu sjálfvirkrar þvottastöðvar fyrir P-8A-vélarnar.

Fram kemur í fréttinni að samningurinn sé til tveggja ára og skuli verkinu vera lokið eigi síðar en í febrúar 2021. Samningsupphæðin er tæplega 14 milljónir dollara eða rúmlega 1,6 milljarðar króna. Fjögur fyrirtæki buðu í verkefnið.

mbl.is

Bloggað um fréttina