Utanríkisráðuneytið hlýtur jafnlaunavottun

Anna Ósk Kolbeinsdóttir, Davíð Lúðvíksson, Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, Sturla …
Anna Ósk Kolbeinsdóttir, Davíð Lúðvíksson, Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, Sturla Sigurjónsson og Berglind Bragadóttir. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Utanríkisráðuneytið hefur hlotið jafnlaunavottun frá Vottun hf. sem er staðfesting þess að jafnlaunakerfi ráðuneytisins samræmist kröfum jafnlaunastaðalsins. 

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Sturla Sigurjónsson ráðuneytisstjóri veittu í dag viðtöku skírteini þessu til staðfestingar ásamt þeim Önnu Ósk Kolbeinsdóttur mannauðs- og launafulltrúa og Berglindi Bragadóttur stjórnarráðsfulltrúa. Davíð Lúðvíksson úttektarmaður afhenti skírteinið fyrir hönd Vottunar hf.

Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Jafnlaunavottun var lögfest í júní 2017 með breytingu á lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. 

Ráðuneytið fór í gegnum vinnu við jafnlaunavottun á árinu 2018 og hefur vottunin nú tekið gildi. Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu segir að unnið hafi verið að innleiðingu jafnlaunavottunar á vegum Stjórnarráðsins á síðustu mánuðum og nær öll ráðuneyti hafa nú hlotið vottun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert